Tjón af völdum álfta og gæsa skráð í Jörð.is

Vert er að vekja athygli á forsíðufrétt 9. tölublaðs Bændablaðsins sem og frétt á bbl.is um hvernig skuli bregðast við ásókn álfta og gæsa í ræktarlönd. Í nefndum fréttum kemur meðal annars fram að móta þurfi aðgerðaáætlun vegna ágangs þessara fugla á ræktarlönd bænda. Meðal annars voru kynntar hugmyndir um að hleypa af stað könnun meðal bænda á næstu vikum, þar sem ætlunin væri að skrásetja umfang vandans í sveitum landsins en einnig kom fram að vandinn væri sá að tjónið hafi ekki verið metið og því sé erfitt að skilgreina og skipuleggja viðbrögð þar sem skortur sé á greinargóðum upplýsingum um áganginn.

Á það má benda að áður hafa slíkar kannanir verið gerðar og svörun hafi víða verið ófullnægjandi. Það sem er hins vegar athyglisvert er að á fundinum kom fram hjá fulltrúum BÍ sú hugmynd að virkja gagnagrunninn, jörð.is, sem tengdur er ,,bændatorginu" en þar eru skráðar upplýsingar um nýtingu bænda á jörðum sínum. Með því að gera umbætur á því kerfi ættu bændur að geta skilgreint og skráð allt tjón sem þeir verða fyrir af völdum villtra fugla og á hvaða spildum tjónið á sér stað.

Fram kemur í fréttunum að skrifstofustjóri á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, hafi ekki gert sér grein fyrir hversu þetta skráningarkerfi væri umfangsmikið og gott, því væri kjörið að endurbæta það í samstarfi bænda og umhverfisyfirvalda svo það gæti nýst bændum og þá stjórnvöldum um leið til að halda utan um allt tjón af völdum álfta, gæsa, eða annarra fugla á ræktarlöndum bænda. Því þyrfti ekki að leggja út í flókna vinnu við að upphugsa nýtt kerfi til að halda utan um þessa hluti til framtíðar.

Í ljósi þessa er vert að hvetja bændur til að gera átak í kortagerð, þ.e. að uppfæra gömul túnakort sem ekki eru teiknuð inn í kortagrunn Loftmynda ehf. og hafa þar með ekki tengingu inn í jörð.is Þarna er komin enn ein ástæða til að auka notkun á jörð.is.

Sjá nánar: 

Bændablaðið 9. tölublað 2014

Frétt bbl.is - Brugðist við ásókn álfta og gæsa í ræktarlönd

sj/okg