Fyrstu keyrslu á erfðamati lokið – erfðamengisúrval tekur við

Jörfi 13011 á nú flesta syni í notkun. Mynd: NBÍ
Jörfi 13011 á nú flesta syni í notkun. Mynd: NBÍ

Fagráð í nautgriparækt fundaði í morgun og segja má að um sérstakan hátíðafund hafi verið að ræða. Til umfjöllunar voru niðurstöður fyrstu keyrslu á erfðamati sem Þórdís Þórarinsdóttir hefur haft veg og vanda af með dyggri aðstoð Egils Gautasonar og Jóns Hjalta Eiríkssonar. Þessi stóri áfangi markar tímamót í íslenskri nautgriparækt þar sem nú tekur við erfðamengisúrval með tilheyrandi umbyltingu á því kynbótaskipulagi sem hefur verið við lýði undanfarna áratugi. Hér er án efa um að ræða eitt stærsta, ef ekki stærsta, framfaraskref sem stigið hefur verið í íslenskri búfjárrækt. Við nálgumst nú lokahnykkinn í ferli sem hófst fyrir um fimm árum síðan og talið var óhugsandi fyrir áratug.

Við skulum hins vegar víkja aðeins að niðurstöðunum og þeim breytingum sem verða. Fyrir það fyrsta mun nú notkun óreyndra nauta heyra sögunni til. Þannig verður aðeins um að ræða naut í notkun sem verða þá allt niður í rúmlega ársgömul. Jafnhliða því verður tilnefningu sérstakra nautsfeðra hætt og öll naut í notkun munu koma til greina sem feður nautkálfa sem keyptir verða á stöð. Val nautkálfa mun byggja á arfgreiningum og erfðamati þeirra sjálfra þegar kerfið verður að fullu komið til framkvæmda. Það sama má segja að muni eiga við um val nautsmæðra. Það mun byggja á arfgreiningum og erfðamati þeirra sjálfra enda mun meirihluti kúa í framleiðslu verða arfgreindur innan þriggja ára. Þannig styrkja sýnatökur úr kvígum og arfgreiningar þeirra val nautsmæðranna í framtíðinni.

Fagráð tók á fundinum byltingarkennda ákvörðun um það hvaða naut verða í dreifingu næstu vikur/mánuði. Yngsta nautið sem sett verður í notkun er aðeins 19 mánaða gamall en annars er að finna í hópnum naut fædd 2016-2021. Við valið var horft til þess að velja bestu nautin samkvæmt erfðamati og dreifa faðerni þeirra mikið. Þau 22 naut sem verða í dreifingu eru undan 14 feðrum. Rétt er taka skýrt fram að mat þessara gripa getur átt eftir að breytast og innbyrðis röð þeirra riðlast eftir því sem upplýsingar um dætur þeirra berast. Þannig er óvíst að það naut sem er með hæst erfðamat nú verði það eftir næstu keyrslu og svo koll af kolli. Hins vegar er ljóst að þessi hópur nauta er úr hópi þeirra bestu sem um ræðir.

Naut sem verða til notkunar á næstunni eru:

Bikar 16008 frá Stóru-Hildisey 2 í Landeyjum, f. Bambi 08049, mf. Vindill 05028,
Jarfi 16016 frá Helgavatni í Þverárhlíð, f. Bambi 08049, mf. Stíll 04041,
Herkir 16069 frá Espihóli í Eyjafirði, f. Gustur 09003, mf. Baldi 06010,
Þróttur 17023 frá Ósi í Hvalfjarðarsveit, f. Klettur 08030, mf. Þræll 09068,
Búkki 17031 frá Lundi í Lundarreykjadal, f. Dropi 10077, mf. Bolti 09021,
Ós 17034 frá Espihóli í Eyjafirði, f. Úlli 10089, mf. Kambur 06022,
Títan 17036 frá Káranesi í Kjós, f. Úranus 10081, mf. Dynjandi 06024,
Óberon 17046 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum, f. Úranus 10081, mf. Skalli 11023,
Barón 17050 frá Bryðjuholti í Hrunamannahr., f. Úlli 10089, mf. Laufás 08003,
Ítali 17056 frá Stóru-Reykjum í Flóa, f. Úlli 10089, mf. Þáttur 08021,
Beykir 18031 frá Brúnastöðum í Flóa, f. Gýmir 11007, mf. Baldi 06010,
Tindur 19025 frá Hvanneyri í Andakíl, f. Sjarmi 12090, mf. Klettur 08030,
Skáldi 19036 frá Skáldsstöðum í Eyjafirði, f. Bárður 13027, mf. Klettur 08030,
Kvóti 19042 frá Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, f. Sjarmi 12090, mf. Úlli 10089,
Samson 19060 frá Egilsstöðum á Völlum, f. Steri 13057, mf. Baldi 06010,
Marmari 20011 frá Glitstöðum í Norðurárdal, f. Jörfi 13011, mf. Bambi 08049,
Banani 20017 frá Vatnsenda í Eyjafirði, f. Jörfi 13011, mf. Bambi 08049,
Svarfi 20027 frá Hofsá í Svarfaðardal, f. Jörfi 13011, mf. Bambi 08049,
Keilir 20031 frá Brúnastöðum í Flóa, f. Hálfmáni 13022, mf. Bolti 09021,
Garpur 20044 frá Birtingaholti 1 í Hrunamannahr., f. Jörfi 13011, mf. Bambi 08049,
Óðinn 21002 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahr., f. Kláus 14031, mf. Úlli 10089 og
Hákon 21007 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum, f. Ýmir 13051, mf. Fossdal 10040.

Nú mun taka einhvern tíma að koma þessum nautum út til frjótækna og menn verða því að sýna biðlund og þolinmæði munandi það að góðir hlutir gerast hægt.

Erfðamat, það er nýtt kynbótamat, hefur verið lesið inn í Huppu og þar geta því þeir sem hafa sent sýni úr kvígum sem búið er að arfgreina því séð erfðamat sinna gripa. Þeir gripir sem ekki hafa arfgreiningu eru í raun ekki með erfðamat heldur hefðbundið kynbótamat og gripir sem hafa arfgreiningu með greiningarhlutfall hærra en 0,9 eru með erfðamat. Það er því hægt að sjá hvort gripurinn er með erfðamat með því að skoða hvort niðurstöður arfgreiningar eru komnar inn en það sést einnig á því að merkið með tvöfalda helixnum við númer gripsins breytist úr appelsínugulu í grænt þegar niðurstöður berast.

Unnið er að uppfærslu upplýsinga um naut í notkun á nautaskra.is.