Nautgriparækt fréttir

Nautaskrá vetrarins 2022-23 að koma út

Nautaskrá fyrir veturinn 2022-23 mun koma úr prentun nú á næstu dögum og verður dreift til kúabænda í kjölfarið. Skráin er á hefðbundnu formi, litprentuð í A4-broti og inniheldur upplýsingar um öll naut í notkun ásamt ítarefni og faglegum greinum. Þar er um að ræða greinar frá eftir Þórdísi Þórarinsdóttur hjá RML, um endurbætta heildareinkunn fyrir spena og nýtt og endurbætt kynbótamat fyrir endingu. Þá er einnig að finna í skránni greinar um upphaf erfðamengisúrvals í íslenska kúastofninum eftir Guðmund Jóhannesson og Þórdísi Þórarinsdóttur hjá RML, hvatningargrein frá Frjótæknafélaginu, lokakafla skýrslu um leiðir til hagræðingar varðandi fóðurkostnað kúabænda eftir ráðunauta RML og bréf frá bændum efir þau Laufeyju og Þröst á Stakkhamri á Snæfellsnesi.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum október

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 484 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 125 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.653,0 árskúa á búunum 484 var 6.300 kg. eða 6.457 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina.
Lesa meira

Upptaka af fræðslufundi um erfðamengisúrval

Fyrir þá sem ekki komust á fræðslufundinn um erfðamengisúrval eða vilja endurtaka leikinn er tilbúin upptaka af fundinum sem menn geta horft á í góðu tómi. Á fundinum fór Þórdís Þórarinsdóttir yfir hvað erfðamengisúrval er og hvernig það hefur verið innleitt hérlendis. Guðmundur Jóhannesson fór yfir framkvæmd erfðamengisúrvals með tilliti til vals nautsmæðra, nautkálfa og hvernig þetta gjörbreytir framkvæmd kynbótastarfsins.
Lesa meira

Fræðslufundur um erfðamengisúrval

RML stendur fyrir fræðslufundi um nýtt erfðamengisúrval og erfðamat mánudaginn 7. nóv. n.k. kl. 13.00. Fundurinn verður á Teams, sjá hlekk neðar. Á fundinum mun Þórdís Þórarinsdóttir fjalla um og skýra hvað erfðamengisúrval og erfðamat er auk þess að skýra hvað þessi stóra breyting þýðir varðandi erfðaframframfarir. Guðmundur Jóhannesson fer yfir þær breytingar sem verða á kynbótaskipulaginu, hvernig staðið verður að vali nauta og nautsmæðra og framkvæmd ræktunarstarfsins með nýju skipulagi.
Lesa meira

Ungir kynbótafræðingar ljúka námi

Á þessari stundu fer fram doktorsvörn Egils Gautasonar við Háskólann í Árósum en verkefni hans ber titilinn Erfðafræðilegt val og skyldleikastjórnun í litlum mjólkurkúastofni (e. Genomic selection and inbreeding management in a small dairy cattle population). Egill Gautason rannsakaði tengsl íslenskra nautgripa við önnur kyn, skyldleikaræktun í íslenskum nautgripum, lagði mat á kosti þess að nota erfðafræðilegar upplýsingar við val (svokallað erfðafræðilegt val) og bar saman aðferðir til að stjórna skyldleikaræktun í ræktunaráætluninni í sínu doktorsnámi.
Lesa meira

Fyrstu keyrslu á erfðamati lokið – erfðamengisúrval tekur við

Fagráð í nautgriparækt fundaði í morgun og segja má að um sérstakan hátíðafund hafi verið að ræða. Til umfjöllunar voru niðurstöður fyrstu keyrslu á erfðamati sem Þórdís Þórarinsdóttir hefur haft veg og vanda af með dyggri aðstoð Egils Gautasonar og Jóns Hjalta Eiríkssonar. Þessi stóri áfangi markar tímamót í íslenskri nautgriparækt þar sem nú tekur við erfðamengisúrval með tilheyrandi umbyltingu á því kynbótaskipulagi sem hefur verið við lýði undanfarna áratugi. Hér er án efa um að ræða eitt stærsta, ef ekki stærsta, framfaraskref sem stigið hefur verið í íslenskri búfjárrækt. Við nálgumst nú lokahnykkinn í ferli sem hófst fyrir um fimm árum síðan og talið var óhugsandi fyrir áratug.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum september

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 470 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 123 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.094,8 árskúa á búunum 470 var 6.294 kg. eða 6.238 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina.
Lesa meira

Eitt nýtt reynt naut úr árgangi 2017

Fagráð í nautgriparækt fundaði nú í morgun og tók ákvörðun um að setja eitt nýtt naut í hóp reyndra nauta í dreifingu. Um er að ræða Óberon 17046 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum, undan Úranusi 10081 og Mósaik 1036 Skalladóttur 11023. Aðrar breytingar voru ekki gerðar á reyndum nautum í notkun. Nautsfeður til notkunar næstu mánuði verða óbreyttir að öðru leyti en því að Jötunn 17026 fellur út og í hans stað kemur Herkir 16069 inn sem nautsfaðir.
Lesa meira

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar í nýliðnum ágúst

Þegar áður nefndar niðurstöður voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 468 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 123 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 23.884,1 árskýr á búunum 468 reyndist 6.308 kg. eða 6.236 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk)
Lesa meira

Erfðamengisúrval: Búið að greina sýni úr 1.230 gripum hérlendis

Nú eru komnar niðurstöður arfgerðargreininga úr 1.230 gripum frá því DNA-sýnataka úr kvígum hófst er liðið var á síðasta vetur til viðbótar við þær u.þ.b. 12 þús. sem komnar voru áður. Búið er að yfirfara niðurstöðurnar með hliðsjón af ætterni og leiðrétta það þar sem kom í ljós að um rangfærslur var að ræða. Samtals reyndust 73 gripir af þessum 1.230 vera rangt ættfærðir eða 5,9%. Þá innihéldu 27 sýni það lítið erfðaefni að greining telst ómarktæk, það er ekki tókst að greina nægan fjölda erfðavísa til þess að niðurstöður séu nothæfar. Þessu til viðbótar voru sex sýnaglös tóm þegar þau komu til greiningar, nokkuð sem er illskiljanlegt hafi einstaklingsmerkið verið sett í eyra viðkomandi gripa.
Lesa meira