Nautgriparækt fréttir

Skýrslur nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn ágúst

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, nú að ágústmánuði liðnum, má nú finna á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram um hádegi þann 11. september. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en mun meiri upplýsingar liggja fyrir í töflum þeim sem tengill er í neðst í þessari frétt. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 436 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 115 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.392,8 árskúa á búunum 436 var 6.578 kg. eða 6.832 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk)
Lesa meira

Flýtileið í gripaleit í Huppu

Vakin er athygli á að búið er að setja inn flýtileið fyrir gripaleit inn í Huppu. Undir Huppu merkinu efst vinstra megin er nú kominn lítill gluggi þar sem hægt er að slá inn 4 stafa gripanúmer eða nafn á grip og þannig hoppa beint inn í upplýsingar um viðkomandi grip í stað þess að þurfa að fara inn í gripalistann í valmyndinni, finna gripinn og smella á hann þar til að opna gripaupplýsingarnar.
Lesa meira

Kyngreint sæði úr fleiri nautum komið í dreifingu

Hægt og bítandi fjölgar þeim nautum sem kyngreint sæði stendur til boða úr. Á flestum svæðum er hafin dreifing á kyngreindu sæði (X-sæði) úr Draupni 23040, Bigga 24004 og Kládíusi 24011. Á einhverjum svæðum hafa Brími 23025, Meistari 23038, Bolli 24002, Valens 24003 og Hálsi 24006 bæst í þann hóp. Þá er einnig komið X-sæði til dreifingar úr Angus-nautinu Mola 24402 á ákveðnum svæðum og Y-sæði úr Möskva 24404 stendur til boða á flestum svæðum.
Lesa meira

Kyngreint nautasæði komið í notkun

Nú hafa orðið þau miklu tímamót að kyngreint sæði er komið til notkunar og í fyrstu stendur það til boða úr þremur nautum. Hins vegar munu fleiri naut bætast í þann hóp þegar kyngreiningu og gæðaprófun lýkur. Samhliða þessu hafa verið gerðar breytingar á þeim nautum sem eru í dreifingu. Til notkunar koma nú átta ný naut og sex fara úr dreifingu. Þau naut sem koma ný til notkunar eru Meistari 23038 frá Litla-Dunhaga í Hörgárdal undan Óðni 21002 og Maddý 855 Jörfadóttur 13011, Draupnir 23040 frá Fagurhlíð í Landbroti undan Marmara 20011 og Dimmalimm 625 Steradóttur 13057, Stjóri 23041 frá Dæli í Fnjóskadal undan Kvóta 19042 og 1009 Piparsdóttur 12007, Bolli 24002 frá Miðskógi í Miðdölum undan Keili 20031 og Rakel 872 Búkkadóttur 17031, Valens 24003 frá Lyngbrekku á Fellsströnd undan Banana 20017 og Skessu 340 Hálfmánadóttur 13022, Biggi 24004 frá Flatey í Hornafirði undan Skálda 19036 og Gyðu 3272 Gyrðisdóttur 17039, Hálsi 24006 frá Signýjarstöðum í Hálsasveit undan Kvóta 19042 og 922 Óberonsdóttur 17046 og Kládíus 24011 frá Ósabakka á Skeiðum undan Garpi 20044 og Lilju 984 Sjarmadóttur 12090.
Lesa meira

Kynbótaskipulag með erfðamengisúrvali fyrir lítil kúakyn

Í hinu virta tímariti Journal of Dairy Science er búið að birta grein eftir Þórdísi Þórarinsdóttur, hjá RML, og Jón Hjalta Eiríksson og Egil Gautason, hjá LbhÍ. Meðhöfundar þeirra eru Jörn Rind Thomasen og Huiming Liu hjá Viking Genetics og Háskólanum í Árósum í Danmörku. Greinin fjalllar um kynbótaskipulag með erfðamengisúrvali í litlum kúakynjum og er sjónum einkum beint að áhrifum mikillar notkunar heimanauta, kyngreinds sæðis og fósturvísaflutninga á kynbótaskipulag. Ástæða er til að óska höfundunum til hamingju með birtinguna en það er ekki sjálfgefið að fá greinar birtar í ritrýndu tímariti á borð við Journal of Dairy Science. Hér á eftir verður farið nokkrum orðum efni greinarinnar.
Lesa meira

Fyrstu tölur úr tilraun með kyngreint sæði

Eins og kunnugt er var nautasæði kyngreint í fyrsta skipti á Íslandi í desember 2024. Þá var kyngreint sæði úr fimm nautum í tilraunaskyni þar sem hverri sæðistöku var skipt í annars vegar hefðbundið sæði og hins vegar kyngreint. Þetta sæði var notað um mest allt land án þess að frjótæknar eða bændur vissu um hvora tegundina var að ræða. Fyrsta sæðing fór fram 15. janúar s.l. og tilrauninni lauk þann 31. maí. Nú liggja fyrir allra fyrstu tölur um 56 daga ekki uppbeiðsli og eru þær birtar með fyrirvara þar sem uppgjöri er alls ekki lokið. Hins vegar styttist í að kyngreint sæði komi til notkunar og mikilvægt fyrir bændur að vita að hverju þeir ganga.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn júlí

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, nú að loknum júlí, má nú sjá á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram yfir nón þann 13. ágúst. Hér á eftir er farið stuttlega yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en mun meiri upplýsingar liggja fyrir í töflum þeim sem tengill er í neðst í þessari frétt. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 438 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 114 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.322,3 árskúa á búunum 439 var 6.572 kg. eða 6.830 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk)
Lesa meira

Sumarfrí í júlí 2025 - viðvera á starfsstöðvum og símsvörun

Í júlí er víða lítil viðvera á starfsstöðvum RML vegna sumarleyfa starfsfólks. Því getur verið að erindi fái ekki afgreiðslu fyrr en að þeim loknum í byrjun ágúst. Aðalnúmer RML 516-5000 er opið sem hér segir:  Mánudaga – fimmtudaga; kl 9-12 og 13-16. Föstudaga; kl 9-12. Eftir hádegi á föstudögum er lokað.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn júní

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar síðustu 12 mánuði, þegar júnímánuður hefur runnið sitt skeið, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar nokkuð var liðið á dag þann 11. júlí. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en mun meiri upplýsingar er að finna í töflum þeim sem tengill er í neðst í fréttinni. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 422 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 115 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 23.234,5 árskúa á búunum 422 var 6.547 kg. eða 6.799 kg. OLM
Lesa meira

Tíunda íslenska kýrin til að ná 100 þús. kg æviafurðum

Við mjaltir nú í morgun (18. júní 2025) rauf afrekskýrin Snotra 273 í Villingadal í Eyjafirði 100 þús. kg múrinn í æviafurðum og varð þar með tíunda íslenska kýrin til að ná þeim merka áfanga. Þetta er töluvert afrek hjá kú af kyni þar sem meðalafurðir eru um 6.500 kg á ári og í raun á sama skala og þegar að Holstein-kýr ná 200 þús. kg markinu. Snotra 273 er fædd 10. nóvember 2010, dóttir Sigurfara 08041 frá Hjarðarfelli á Snæfellsnesi og Leistu 249 Ljúfsdóttur 05040 en hann var frá Núpstúni í Hrunamannahreppi. Snotra átti sinn fyrsta kálf 22. janúar 2013 og hefur síðan þá borið 10 sinnum. Afkvæmin eru því orðin ellefu talsins, þar af fimm kvígur. Snotra hafði um síðustu mánaðamót mjólkað 99.507 kg yfir ævina og við síðustu mælingu núna í júní var hún í 28,5 kg. Samkvæmt því mjólkaði hún sitt 100 þúsundasta kg við mjaltir í Villingadal í morgun.
Lesa meira