Líklega hefur enginn sæðingastöðvahrútur borið ARR arfgerð

Dalur 17-870
Dalur 17-870

Það er óhætt að segja að heimsmyndin hafi breyst við það að fundist hafi hér kindur sem bera hina svokölluðu ARR arfgerð príonpróteinsins eða með öðrum orðum að breytileikinn sem táknaður er sem R fannst í sæti 171. Búið var að leita markvist að þessari arfgerð fyrir aldamótin í rannsókn sem gerð var á Keldum. Í framhaldi af þessum rannsóknum er farið að skoða sæðingahrútana skipulega og þeir greindir og niðurstaðan birt m.a. í hrútaskrá. Á árunum 1999 til 2003 var þó aðeins leitað í sætum 136 og 154, þar sem áhættuarfgerðin og lítið næma arfgerðin finnst, en á þeim tíma voru bundnar væntingar við að H í 154 gæfi fullkomna vernd og R í 171 væri líklega ekki í stofninum. Árið 2004 er síðan tekin sú ákvörðun af Fagráði í sauðfjárrækt að það sé ekki lengur bóndans val hvort hann noti hrúta með áhættuarfgerð og slíkir hrútar ekki lengur teknir sæðingastöð. Sama ár (2004) tekur Matís við af Keldum að greina sýni vegna sæðingastöðvanna, auk þess að þjónusta bændur. Frá því ári og fram til 2009 eru öll sýni raðgreind og því skipulega skoðað í sæti 171. Á þessu tímabili var þónokkuð af sýnum greint, þar á meðal öll hjörðin á Hesti í Borgarfirði en aldrei fannst neinn breytileiki í sæti 171. Þar sem Hesthrútarnir hafa margir verið mjög áhrifaríkir í ræktunarstarfinu segja niðurstöður frá því búi talsvert um stöðuna í mörgum öðrum hjörðum. Á þessum tímapunkti hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að óhætt væri að gera þessar greiningar hagkvæmari og skoða einungis tvö sæti (136 og 154), af þeim þremur sem venjulega eru greind í löndum Evrópusambandsins. Þetta hefur þótt rökrétt ákvörðun í ljósi stöðunnar á þeim tíma, þó það horfi öðruvísi við okkur í dag. Þess má geta að frá 2009 hefur alltaf þurft að raðgreina eitthvað af sýnum. Um 1.200 sýni hafa verið þannig greind hjá Matís frá árinu 2009 en aldrei fundist neinn breytileiki í sæti 171. Þar á bæ er nú unnið að því að innleiða nýjar aðferðir með það að markmiði að fjölga sætum í arfgerðagreiningum og lækka verð til bænda.

Í kjölfar tíðra riðutilfella og umfangsmikils niðurskurðar á allra síðustu árum, fór mikil umræða af stað um hvað væri til bragðs að taka í baráttunni við útrýmingu riðuveiki. Aftur fer athyglin að beinast að arfgerðagreiningum og ræktun á þolnu fé gegn riðu. Haustið 2020 er rætt í Fagráði sauðfjárræktar að skoða þurfi allar leiðir við að ná hér inn verndandi arfgerð gegn riðuveiki. En áður en farið sé að athuga innflutning á erfðaefni þurfi að leita ennþá betur í stofninum að ARR arfgerðinni. Í framhaldinu verður til samstarfsverkefni RML og Keldna og síðar samstarf við Karólínu og fleiri og leitin útvíkkuð og margir spennandi möguleikar opnast – ekki bara leitað að ARR heldur fleiri áhugaverðum kostum. Nú erum við stödd þar í messunni að stærsta átak í arfgerðargreiningum hér á landi er að hefjast.

Í skjali sem nú er aðgengilegt hér á heimsíðu RML er yfirlit yfir arfgerðagreiningar hjá 504 sæðingastöðvahrútum sem er nánast tæmandi listi yfir þá hrúta sem hafa verið greindir í gegnum tíðina. Útfrá þessum niðurstöðum má sjá hvort hrútarnir hafi verið greindir með greiningum sem aðeins taka til tveggja sæta og þar með ekki hægt að fullyrða hvort þeir beri verndandi arfgerðina eða ekki, eða hvort búið sé að greina fleiri sæti og þar með sé hægt að fullyrða að þeir beri ekki ARR. Þá munu bætast við meiri upplýsingar á næstu vikum. Á Matís verða endurskoðaðar allar niðurstöður úr raðgreiningum frá árunum 2004 til 2009 til að athuga með breytileika í öðrum sætum en þeim hefðbundnu. Þá verður í samstarfi við Keldur unnið að því að endurgreina nokkurn hóp hrúta sem einungis eru í dag með tveggja sæta greiningu. Tilgreint er í skjalinu hvaða hrútar eru þar á óskalistanum. Þessar upplýsingar geta nýst bændum við leit að verndandi arfgerðum í sínum stofnum, þar sem þá má útiloka ákveðna sæðingahrúta sem mögulega arfbera verndandi arfgerða.

Listi yfir sæðishrúta og arfgerðir