Sauðfjárrækt fréttir

Bógkreppa – erfðapróf

Þeir sem vilja fá framkvæmt erfðapróf fyrir bógkreppu nú fyrir fengitíma eru hvattir til að senda inn sýni sem fyrst, en nú er verið að safna í sýnakeyrslu á þeim sýnum sem greina þarf fyrir fengitíma. Stefnt er að því að sýni sem verða komin til RML í síðasta lagi 17. nóvember verði komin með niðurstöður eigi síðar en 4. desember, niðurstöður verða síðan lesnar inn í Fjárvís.
Lesa meira

Hrútaskráin 2025-26 er komin á vefinn

Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna fyrir 2025-26 er komin á vefinn. Skráin er á hefðbundnu pdf-formi og hægt er nálgast hana undir "Kynbótastarf -> Sauðfjárrækt -> Hrútaskrá" eða með því að nota hlekkinn hér neðar. Skráin er eflaust mörgum kærkomin lesning, nú þegar daginn er tekið að stytta verulega og svartasta skammdegið tekið við. Við vonum að sauðfjárræktendur og aðrir áhugamenn um sauðfjárrækt njóti lesningarinnar þar til prentaða útgáfan kemur út í næstu viku og verður m.a. dreift á hinum svokölluðu hrútafundum. Skráin er 56 síður að stærð, litprentuð í A4-broti og inniheldur upplýsingar um 46 hrúta sem notaðir verða til sæðinga í vetur. Hrútakosturinn er gríðarlega öflugur þrátt fyrir að vera að mestu leyti skipaður lambhrútum. Þannig eru aðeins 11 hrútar sem hafa verið áður á stöð en 35 ungliðar koma nú fram á sjónarsviðið, hver öðrum betri. Þessi mikla endurnýjun er liður í innleiðingu verndandi arfgerða gegn riðu og er ekki annað að sjá en ræktun gegn riðu samhliða ræktun fyrir kjötgæðum og öðrum kostum gangi vonum framar. Í það minnsta ber hrútakosturinn þess merki.
Lesa meira

Starfsdagar RML 5.-7. nóvember 2025

Sameiginlegur vinnufundur starfsfólks RML stendur yfir dagana 5.-7. nóvember. Á vinnufundinum kemur starfsfólk fyrirtækisins saman og vinnur að ýmsum verkefnum tengdu starfinu og þróun fyrirtækisins. Að þessu sinni er hann haldinn á Akureyri. Þessa daga verður því ekki hægt að ná beinu sambandi við starfsfólk okkar og ekki er viðvera á starfsstöðvum.
Lesa meira

Lambadóma þarf að skrá eigi síðar en 2. nóvember

Nú er lambadómum almennt lokið. Næsta verkefni er vinnsla hrútaskrár og er sú vinna í fullum gangi. Áríðandi er að fá alla dóma skráða inn í Fjárvís þannig að gögnin nýtist við vinnslu hrútaskrár en jafnframt er það hagur bænda til að fá auknar upplýsingar um eigin kynbótagripi fyrir vinnslu á kynbótamati. Í hrútaskrá verður að vanda birt yfirlit yfir meðaltöl úr dómum. Þá eru ómmælinganiðurstöður nýttar fyrir kynbótamat fyrir bakvöðvaþykkt og fituþykkt og þessar niðurstöður hafa áhrif á kynbótamat fyrir gerð og fitu þar sem þetta eru nátengdir eiginleikar. Þá er æskilegt að sem mest af sláturgögnum sé staðfest í Fjárvís þannig að sem réttastar upplýsingar séu nýttar við keyrslu á kynbótamati fyrir gerð og fitu.
Lesa meira

Þokugreiningar – hægagangur á viðbótargreiningum úr DNA sýnasafni

Því miður hefur ekki gengið nógu vel nú í haust að nota DNA úr sýnasafni sem nú er vistað hjá Matís (sýni sem send voru í riðuarfgerðargreiningu hjá ÍE og send inn til greiningar fyrir 1. ágúst) til að greina þokugen. Því verður að sinni hætt að bjóða upp á það að bændur panti viðbótagreiningu á eldri DNA sýni, heldur sendi inn nýtt sýni ef óskað er eftir að fá þokugreiningu. Sýni vegna þokugreiningar má senda á sömu starfsstöðvar RML og taka á móti riðuarfgerðargreiningarsýnum, merkja þessi sýni vel og hafa sér í poka og láta fylgja upplýsingar um grip, bæ og greiðanda. Sýnin eru skráð í Fjárvís undir „forskráning á öðrum arfgðerðargreiningum“. 
Lesa meira

Glampi 24-943 – bógkreppa

Líkt og tilkynnt var sl. vor, þá kom í ljós á liðnum vetri að hrúturinn Glampi 24-943 frá Hafrafellstungu bæri erfðavísi fyrir bógkreppu. Þetta var niðurstaða erfðaprófs en allir hrútar sem voru á sæðingastöð síðasta vetur voru skimaðir fyrir þessum galla en því miður bárust niðurstöður fyrir Glampa ekki fyrr en eftir fengitíð. Bændur eru hvattir til að taka sýni úr álitlegum ásetningsgripum undan Glampa og fá þau prófuð fyrir bógkreppu. Helmingslíkur eru á að hvert afkvæmi beri gallann. Í raun á það sama við varðandi afkvæmi Viðars 17-844 frá Bergsstöðum og eru bændur einnig hvattir til að taka sýni úr þeim.
Lesa meira

Dómar á forystulömbum

Á dögunum dæmdi Oddný Steina Valsdóttir tvílembinga af 100% forystukyni, einstaklega greindarleg og glæsileg systkini sem sýndu greinilega forystuhæfileika þegar þau voru rekin um með hópi lamba sem ekki voru af forystukyni. Þessi systkini eru frá bænum Ási 2 í Ásahrepp í eigu Ástríðar Magnúsdóttur og Hannesar Brynjars Sigurgeirssonar, undan sæðingarhrútunum 24-976 Völundi frá Gróustöðum og 21-105 Prinsessu frá Fossi. Samkvæmt þessum lömbum virðist Völundur ætla að sanna sig til kynbóta á íslenska forystufjárstofninum en í hrútaskránni er honum lýst sem úrvals forystugrip, rólegum og skynsömum, þrátt fyrir ungan aldur.
Lesa meira

Gripaleitin í Fjárvís

Við höfum nú opnað að nýju fyrir gömlu gripaleitina í Fjárvís. Bæði gamla leitin og sú nýja eru því virkar. Notendur geta valið hvort þeir noti gömul eða nýju leitina. Við vonum að þetta mælist vel fyrir nú í hauststörfunum þegar mikið álag er á forritinu og sauðfjárbændur í miklum önnum.
Lesa meira

Nýja gripaleitin í Fjárvís komin í loftið

Rétt í þessu fór nýja gripaleitin aftur í loftið, eftir að hafa undirgengist ýmsar betrumbætur síðustu daga. Við vonum að fall sé fararheill og að allt virki núna eins og það á að gera. Dómaskráningin var einnig uppfærð svo nú ætti lífþungi að fylgja sjálfkrafa með í dómaskráninguna, og upplýsingar um gripinn sem valinn er að vera sýnilegri.
Lesa meira

Ábendingar varðandi dómayfirlit í Fjárvís

Nokkuð hefur borið á því í haust að notendur Fjárvís hafi lent í basli með að opna dómayfirlitið í Excel. Hér eru örstuttar leiðbeiningar um það hvaða leið er hægt að fara.
Lesa meira