Niðurstöður skýrsluhalds í sauðfjárrækt 2015

Uppgjöri skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir árið 2015 er að mestu lokið þó víða leynist ófrágengar „eftirlegukindur“ á nokkrum búum. Bændur er því minntir á að skil eru ekki fullnægjandi fyrr en haustgögnum er skilað og framleiðsluárið 2016 hefur opnast. Reiknaðar afurðir eftir hverja kind verða heldur minni en árið 2014 eða sem nemur tæpu kílói. Þar munar mestu um erfitt tíðarfar síðast vor sem leiddi af sér meiri vanhöld en færri lömb koma til nytja árið 2015 en undanfarin ár þó fjöldi fæddra lamba sé svipaður og síðustu ár. Líkt og undanfarin ár eru nú birtir listar yfir þau bú í skýrsluhaldinu, þar sem góður árangur náðist. Nánari grein verður gerð fyrir niðurstöðum ársins í Bændablaðinu innan tíðar.

Árið 2015 stóð bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti, Biskupstungum efst með 44,9 kíló eftir hverja kind og bætir hann þar með íslandsmet sitt frá árinu 2012 um 3,6 kg á hverja kind. Næsta bú á listanum er bú Elínar og Ara á Bergsstöðum í Miðfirði með 38,7 kg eftir hverja kind. Þriðja í röðinni er bú Þormóðs og Borghildar á Sauðadalsá á Vatnsnesi með 38,6 kg eftir hverja kind. Allmörg bú á listanum yfir góðar afurðir árið 2015 er að finna í Vestur-Húnavatnssýslu en þar eru reiknaðar afurðir eftir fullorðna kind 29,6 kíló að jafnaði. Næst kemur Strandasýsla með 28,9 kíló. Best gerðu sláturlömbin á búum þar sem eru fleiri en 100 sláturlömb voru á búi Jóns og Ernu á Broddanesi en gerðareinkunn er 11,98 á tæplega 400 lömbum. Ágúst Ingi Ketilsson á Brúnastöðum í Flóa er annar með gerðareinkunn 11,78 og Guðrún Marinósdóttir á Búrfelli í Svarfaðardal þriðja með 11,75. Nýr listi er nú birtur í fyrsta sinn en það er listi yfir efstu bú í kjötmati þar sem eru færri en 100 sláturlömb að baki meðaltali. Þar stendur efstur Auðbjörn Kristinsson á Gásum með gerðareinkunn 13,5 fyrir 18 sláturlömb.

Bú með 29 kíló eða meira eftir hverja á, þar sem fleiri ær en 100 eru á skýrslum
Bú með 35 kíló eða meira eftir hverja á, óháð fjölda kinda á skýrslum
Bú með 9,5 eða meira í gerð og kjötmat á fleiri en 100 dilkum 
Bú með 9,5 eða meira í gerð og kjötmat á færri en 100 dilkum 

/eib