Sauðfjárbændur athugið - vegna breytinga á búvörusamningum

Nú um áramótin tóku gildi nýir búvörusamningar. Nánari útfærsla á framkvæmd þeirra má finna í reglugerð nr. 1151/2016 um stuðning við sauðfjárrækt.

Frá og með nýliðnum áramótum er þátttaka í skýrsluhaldi skilyrði fyrir greiðslum. Skiladagur vorgagna verður 20. ágúst ár hvert og skal tilkynna framleiðanda fyrir 1. september ef hann stenst ekki skil og veita að hámarki fjögurra vikna frest. Stuðningsgreiðslur frestast frá og með 1. september ef gögnum hefur ekki verið skilað.

Skiladagur haustgagna færist fram frá því sem verið hefur og verður 12. desember ár hvert. Framleiðendum skal tilkynnt fyrir 31. desember hvort hann stenst skilyrði og veittur að hámarki fjögurra vikna frestur til að skila gögnum.

Nánar er fjallað um afurðaskýrsluhald sauðfjár, fyrirkomulag stuðningsgreiðslna og frestun/niðurfellingu greiðslna í 4. - 6. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.

Þar sem nokkrar útfærslur eru á því hvernig skýrsluhaldi á sauðfjárbúum hefur verið háttað - sérstaklega þar sem bændur eru skráðir fyrir tveimur lögbýlum var leitað til búnaðarstofu MAST með hvað væri leyfilegt og hverju þyrfti að lagfæra við þá breytingu að skilyrði fyrir greiðslum væri þátttaka í afurðaskýrsluhaldi. Einstaka bændur gætu þurft að gera einhverjar breytingar hjá sér til að tryggja að eftirlit með framkvæmd skýrsluhalds skili sér rétt svo ekki komi til frestunar greiðslna eða niðurfellingar.

Þar sem greiðslumark, búfjárskýrsla og skýrsluhald er skilað á sama búsnúmeri þarf ekki að gera neinar breytingar. Langflest sauðfjárbú eru þannig uppsett.

Eins þarf ekki að gera breytingar þar sem tvö eða fleiri skýrsluhaldsuppgjör eru á búsnúmeri en einn handhafi stuðningsgreiðslna og einni búfjárskýrslu skilað. Sama gildir þar sem eru tveir eða fleiri handhafar stuðningsgreiðsla á sama búsnúmeri með sameiginlegt skýrsluhald.

Jafnframt hefur ekki áhrif á stuðningsgreiðslur ef fleiri en einn innleggjandi er af lömbum frá sama búi svo lengi sem innleggið er allt á sama búsnúmeri. Ef skrá á auka rétthafa að greiðslum er vakin athygli á því að innlegg auka rétthafa vegna gæðastýringar þarf að vera á sömu kennitölu.

Hjá bændum sem eiga greiðslumark skráð á fleiri en eina jörð en sameiginlegt skýrsluhald fyrir allar mælist Búnaðarstofa til þess að allt greiðslumark sé sameinað á þá jörð þar sem bústofn er skráður. Þetta þarf að tilkynna sérstaklega til Búnaðarstofu. Það er heimilt að flytja greiðslumark milli jarða og ekki er lengur þörf á því að leggja sláturlömb inn á því búsnúmeri sem greiðslumark er skráð á.

Þar sem bóndi er með greiðslumark og skýrsluhald skráð á eitt búsnúmer en er með annað búsnúmer skráð fyrir gæðastýringu þarf að færa gæðastýringuna á sama búsnúmer og greiðslumark og skýrsluhald er skráð á. Nokkuð er um tilvik af þessu.

Þar sem bændur hafa haft sameiginlegt skýrsluhald á einu búsnúmeri en búa á sitt hvoru lögbýlinu og skila tveimur forðagæsluskýrslum og hafa greiðslumark skráð á bæði lögbýlin þarf að aðgreina skýrsluhaldið og hafa það aðgreint fyrir hvert lögbýli.

eib/okg