Áburðarkaup

Áburðarkaup eru einn af stóru kostnaðarliðunum í rekstri kúa- og sauðfjárbúa. Áburðarsalar hafa nú birt framboð og verð á tilbúnum áburði. Framboð er nokkuð áþekkt milli ára þó nokkrar nýjar samsetningar sjáist á listum áburðarsala. Verð hafa hins vegar hækkað nokkuð milli ára.

Mikilvægt er að bændur skipuleggi áburðargjöf sem best til þess að nýting fjármuna og aðfanga sé góð. Besta leiðin til þess að halda niðri áburðarkostnaði er líkt og oft hefur komið fram, góð og markviss nýting á búfjáráburði. Í því felst að vita magnið sem hægt er að nýta á búinu, halda skrá yfir magn sem fer á hverja spildu og hvenær borið er á. Reikna þarf með áburðarefnum úr búfjáráburði við gerð áburðaráætlunar. Ráðunautar sem og margir bændur nota Jörð.is til þess að áætla áburðargjöf. Þar er hægt að skrá dreifingu á búfjáráburði sem og dreifingu sem áætlað er að verði gerð síðar, t.d. í vor og áætla nýtingu áburðarefna. Almennt er miðað við slæma nýtingu áburðarefna á haust- og vetrardreifingu en góða ef borið er á í byrjun gróanda.

Í haust hafa margir sauðfjárbændur rætt möguleika á því að lækka kostnað við heyframleiðslu með því að draga úr kaupum á áburði. Í því sambandi er vert að minna bændur á að flokka ræktarlandið eftir ræktun og uppskeruvæntingum. Gera síðan vel við bestu túnin og draga frekar úr áburðarmagni á gamlar spildur í lélegri rækt. Nýræktuð og uppskerumikil tún svara áburðargjöf best og því mestur ávinningur af því að bera vel á þessar spildur. Einnig er rétt að minna á að nýræktir þurfa mikinn fosfór (P) fyrstu árin.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins mun líkt og undanfarin ár gera áburðaráætlanir fyrir þá bændur sem panta þá þjónustu.

sþ/okg