Afkvæmarannsóknir í sauðfjárrækt 2018

Skilvirk og hagkvæm leið til kynbóta
Til þess að efla þátttöku í afkvæmarannsóknum á hrútum hefur fagráð í sauðfjárrækt ákveðið að hækka styrki til þessa verkefnis. Gert er ráð fyrir að styrkur á hvern veturgamlan hrút í afkvæmarannsókn hækki úr 3.500 kr. í 5.000 kr. Reglur fyrir styrkhæfum afkvæmarannsóknum eru þær sömu og áður, þ.e.a.s. að í samanburði séu að lágmarki 5 hrútar og af þeim séu a.m.k. 4 veturgamlir. Hrúturinn þarf að eiga 8 afkvæmi af sama kyni sem hafa verið ómmæld og stiguð og 15 afkvæmi með kjötmatsniðurstöður. Hrútarnir þurfa að hafa verið notaðir á sem sambærilegasta hópa af ám og öll meðferð og skipulag afkvæmarannsóknarinnar miði að því að hóparnir séu sem best samanburðarhæfir.

Vissulega er hægt að gera samanburð á hrútunum eingöngu á grunni kjötmatsniðurstaðna (sem er þá ekki fullgild afkvæmarannsókn) en mikilvægi ómmælingahlutans í þessu mati fellst m.a. í því að það er besta mælingin sem í boði er til að meta vöðvaþykkt og vöðvahlutfall skrokksins.

Líkt og áður ganga bændur frá uppgjöri á afkvæmarannsóknum sjálfir inn í Fjárvís.is og senda tilkynningu á ee@rml.is þegar uppgjör er frágengið, merkt afkvæmarannsókn. Einnig er hægt kaupa þjónustu hjá RML við að ganga frá afkvæmarannsókninni. Tilkynning um að uppgjöri sé lokið skal berast fyrir 1. desember.

ee/okg