Áhrif langvarandi vætutíðar og/eða stórrigninga á tún og flög: Áburðartap og þjöppun jarðvegs.

Fín efni á yfirborði jarðvegs hafa runnið til og þjappast saman. Hér er flag sem hefur ekki spírað m…
Fín efni á yfirborði jarðvegs hafa runnið til og þjappast saman. Hér er flag sem hefur ekki spírað meðan fræ í öðrum flögum spíraði sem sáð var í á sama tíma.

Slæmt tíðarfar hefur verið á Suður- og Vesturlandi þetta vorið og langvarandi vætutíð með stórrigningum sett svip sinn á vorið í þessum landshlutum. Við slíkar aðstæður er vont að setja út lambær, vinnu í flögum og seinkar vegna ófærðar og búast má við að áburðarefni tapist þar sem dreift var á ræktarland snemma í vor.

Hafi áburður verið borinn á áður en stórrigning á sér stað eða fyrir langvarandi vætutíð er líklegt að skaði hafi orðið, hvort sem það sé tilbúinn áburður eða búfjáráburður. Þá geti verið skynsamlegt að bregðast við því með t.d. auka áburðargjöf svo uppskera verði næg. Það er mikilvægt að hafa í huga að skaðleg áhrif langvarandi vætutíðar geta verið mismunandi því þættir eins og jarðvegsgerð, halli lands, framræsla lands, tímalengd úrkomu og magn úrkomu hafa úrslitaáhrif.

Útskolun næringarefna: Rigningar geta valdið plöntunæringarefnatapi vegna útskolunar úr jarðvegi. Regnvatn drýpur í gegnum jarðveginn og endurnýjar jarðvegsvatnið sem veldur því að uppleyst næringarefni skolast út. Næringarefni sem eru líkleg til að tapast svona vegna útskolunar úr jarðvegi eru t.d. nítrat (form köfnunarefnis), kalí og magnesíum. Þau fjarlægjast þá frá plönturótum og nýtast þeim ekki til vaxtar.

Afrennsli næringarefna: Það getur orðið vegna rigninga, sérstaklega í illa framræstu landi, þegar rúmmál vatns er meira en jarðvegurinn getur innihaldið, þannig að vatnið rennur út af yfirborði ræktarlands. Afrennslið getur auðveldlega borið með sér áburðarefni. Í sumum tilfellum flytjast áburðarefnin til innan spildu en geta einnig runnið útaf spildunni. Afrennsli getur valdið tapi á öllum mögulegum næringarefnum.

Afnítrun köfnunarefnis: Er ferli þar sem plöntunæringarefnið nítrat umbreytist í hláturgas (N2O) og gufar upp en þetta ferli gerist aðeins við súrefnissnauðar aðstæður. Þessar aðstæður eru fyrir hendi þegar áburður er borinn á þegar frost í jörðu og tún eru blaut. Einnig eru þessar aðstæður fyrir hendi þegar vætutíð er langvarandi og tún eru gegnsósa af bleytu í lengri tíma.

Þjöppun yfirborðs í flögum: Miklar rigningar geta haft í för með sér er að jarðvegur í nýunnum flögum þjappast saman á yfirborðinu þannig að súrefni kemst ekki eins greiðlega ofan í jarðveginn en það veldur lélegri spírun fræja. Við slíkar aðstæður er yfirleitt lítið annað að gera en að losa upp yfirborðslagið með léttri jarðvinnslu og endursá í stykkið.
Skortseinkenni plantna: Erfitt er að áætla hversu mikið skaðinn geti orðið en gott er að líta eftir mögulegum skortseinkennum í túnum. Gulir blaðendar, fjólubláar rendur í blöðum, fölgrænn litur eða eitthvað annað eru skortseinkenni sem gott er að fylgjast með.

Ef grunur vaknar um mögulegan skaða vegna einhverra af þessum þáttum er sjálfsagt að hafa samband og leita ráðgjafar hjá RML.

/okg