Skýrslur nautgriparæktarinnar árið 2019 gerðar upp

Vefur frá Torfum í Eyjafirði, undan Hálfmána 13022 og Strýtu 860
Vefur frá Torfum í Eyjafirði, undan Hálfmána 13022 og Strýtu 860

Niðurstöður skýrsluhaldsins í nautgriparæktinni á árinu 2019 hafa verið reiknaðar og birtar hér á vef okkar. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.

Afurðaskýrsluhald hefur verið skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt í rúmlega þrjú ár. Þetta hefur gert það að verkum að þátttaka í skýrsluhaldi er um 100% sem mun vera einsdæmi í heiminum eftir því sem næst verður komist.

 

Niðurstöður skýrsluhaldsins hjá mjólkurframleiðendum 2019

Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 556 en á árinu 2018 voru þeir 569. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 25.819,4 árskýr skiluðu 6.334 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 59 kg frá árinu 2018 en þá skiluðu 26.207,7 árskýr meðalnyt upp á 6.275 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi vega og fjórða árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.586 kg/árskú.

Meðalbústærð reiknaðist 47,6 árskýr á árinu 2019 en sambærileg tala var 47,1 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 62,9 kýr en 2018 reiknuðust þær 63,0. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.979 talsins samanborið við 35.823 árið áður.

Mestar meðalafurðir á Austurlandi

Svæðaskipting er nú gjörbreytt og fylgir að segja má kjördæmum. Á árinu voru mestar meðalafurðir á Austurlandi, 6.653 kg, og síðan kemur Norðurland eystra með 6.502 kg.
Stærst eru búin að meðaltali á Suðurlandi, 50,2 árskýr, en næststærst eru þau á Austurlandi, 49,9 árskýr.

Meðalbúið stendur í stað

Meðalbúið stækkaði milli ára í takt við breytingar á innleggi mjólkur og fækkun innleggjenda. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 277.417 lítrum samanborið við 274.340 lítra á árinu 2018. Þetta er nánast sama meðalinnlegg og árið 2018 eða aðeins aukning um 0,03%. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um þrettán og voru kúabú í framleiðslu 543 talsins nú um áramótin 2019-2020.

Gríðarleg vanhöld á kálfum

Athygli vekur hversu gríðarlega mikil vanhöld eru á kálfum. Þannig fæðist eða drepst í fæðingu meira en fjórði hver kálfur hjá kúm við 1. burð og nú er svo komið að vanhöld á fyrstu sex mánuðum æviskeiðsins eru 10%. Þar er verið að tala um kálfa sem fæðast lifandi. Fyrir nokkrum árum síðan var nánast óþekkt að kálfar sem á annað borð fæddust lifandi dræpust. Þetta leiðir hugann að því hvort að aðbúnaði og umhirðu sé á einhvern hátt ábótavant þar sem ekki er því að heilsa að sjúkdómar hrjái íslenska kálfa í stórum stíl eins og gerist og gengur víða erlendis. Getur verið að við hönnun nýju, stóru og tæknivæddu fjósanna hafi láðst að huga að ungviðinu sem þarf þá að hírast í kulda og trekki úti í horni?

Mestar meðalafurðir á Hurðarbaki í Flóa

Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2019, var á Hurðarbaksbúinu ehf. á Hurðarbaki í Flóa. Segja má að þetta bú sé einn hástökkvara ársins en meðalafurðir þar jukust um ein 1.314 kg/árskú milli ára en á árinu 2019 var nytin á Hurðarbaki að meðaltali 8.678 kg/árskú. Á Hurðarbaki er nýlegt legubásafjós með mjaltaþjóni og hafa afurðir aukist hraðstiga þar á bæ frá því nýja fjósið var tekið til notkunar. Í öðru sæti að þessu sinni var bú þeirra Ólafar og Valgeirs í Hvammi á Barðaströnd. Þetta bú skipaði áttunda sætið við ársuppgjör 2018 en við afurðaaukningu upp á 207 kg/árskú milli ára endar búið í öðru sæti yfir landið. Kýrnar í Hvammi mjólkuðu til jafnaðar 8.394 kg/árskú á árinu 2019.

Þriðja í röðinni við uppgjörið nú og annað árið í röð var bú Guðlaugar og Jóhannesar Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi en þar var meðalnyt árskúnna 8.307 kg. Í fjórða sæti var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit þar sem meðalafurðir kúnna reiknuðust 8.294 kg. Fimmta sætið skipar bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal en þetta bú hefur á undanförnum árum verið með alafurðahæstu búum landsins og dugar þar að nefna annað sætið 2018 og fyrsta sætið 2013, 2014, 2016 og 2017. Auk þess er búið handhafi Íslandsmets í meðalafurðum, 8.990 kg/árskú. Kýrnar á Brúsastöðum mjólkuðu að þessu sinni 8.292 kg/árskú. Sjötta í röðinni var svo afurðahæsta bú síðasta árs og búið í öðru sæti árið 2017, bú þeirra Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal. Þar var meðalnyt ársins 8.286 kg/árskú.

Þessum búum til viðbótar náðu átta bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Búin þar sem meðalafurðir voru 8.000 kg. á árskú og þar yfir eru því jafnmörg og á árinu 2018.

Svana 0753 í Flatey í Hornafirði mjólkaði mest

Nythæsta kýrin á landinu árið 2019 var Svana 1639001-0753 í Flatey á Mýrum í Hornafirði, undan Grána 0608 sem var sonarsonur Lóa 01008. Reyndar er Svana nokkuð skyldleikaræktuð en föðurfaðir og móðurfaðir hennar eru eitt og sama nautið. Svana mjólkaði 14.345 kg með 3,59% fitu og 3,23% próteini. Burðartími hennar féll mjög vel að almanaksárinu en hún bar sínum fimmta kálfi 13. desember 2018 og sínum sjötta kálfi bar hún 15. desember síðastliðinn. Svana fór hæst í 55,7 kg dagsnyt á nýliðnu ári en geldstaða hennar var stutt eða nánast engin og eftir síðasta burð komst hún í 40 kg dagsnyt um áramótin. Svana er fædd á Svanavatni í Austur-Landeyjum í september 2011 en við lok mjólkurframleiðslu þar flutti hún sig um set. Því miður voru ekki haldnar mjólkurskýrslur á Svanavatni á þessum tíma og því eru ekki til gögn um afurðir Svönu á hennar fyrsta mjólkurskeiði. Skráðar æviafurðir hennar, sem ná þá frá öðru mjólkurskeiði til og með byrjunar þess sjötta, voru 49.368 kg um síðustu áramót.

Önnur í röðinni árið 2019 var Spurning 1818 í Birtingaholti 1 í Hrunamannahreppi, undan Skjá 10090, en hún mjólkaði 13.617 kg með 3,72% fitu og 3,31% próteini. Þessi kýr bar sínum fjórða kálfi þann 11. desember 2018 og fór hæst í 49,0 kg dagsnyt á árinu 2019. Skráðar æviafurðir hennar eru 41.284 kg. Þriðja nythæsta kýrin var Rækja 2073 í Flatey í Hornafirði, undan Kóngi 11059, en nyt hennar á árinu var 13.515 kg með 3,78% fitu og 3,45% próteini. Hún bar sínum þriðja kálfi 18. nóvember 2018, fór hæst í 47,5 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 31.252 kg. Fjórða nythæsta kýrin var Píla 1288 í Garði í Eyjafirði, dóttir Afla 11010, en hún mjólkaði 13.476 kg með 3,00% fitu og 3,00% próteini. Hún bar þriðja sinni 20. desember 2018 og fjórða sinni 14. desember síðastliðinn. Á árinu 2019 fór hún hæst í 57,9 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir eru 39.110 kg. Fimmta í röðinni var kýr nr. 643 í Lyngbrekku á Fellsströnd, dóttir Svips 10038. Hún bar fjórða kálfi sínum 20. janúar 2019 og fór hæst í 52,6 kg dagsnyt en hún skilaði samtals 13.219 kg á árinu með 3,57% fitu og 3,09% próteini. Skráðar æviafurðir eru 37.798 kg.

Alls skiluðu 130 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 43 yfir 12.000 kg. Árið 2018 náði 91 kýr nyt yfir 11.000 kg.

Á árinu rufu tvær kýr 100 tonna múrinn

Á árinu 2019 gerðist nokkuð sem má allt að því kalla undur og stórmerki þegar tvær kýr náðu æviafurðum upp á 100.000 kg mjólkur. Við sjáum gjarnan í erlendum nautgriparæktartímaritum kýr sem ná 100 tonna æviafurðum heiðraðar. Þar er oftar en ekki um að ræða Holstein-kýr sem mjólka mun meira að meðaltali en íslenskar kýr og því ekki hægt að segja annað en að það sé mikið afrek hjá kúm af kyni þar sem meðalafurðir eru ríflega 6.000 kg á ári að ná 100 tonna æviafurðum.

Afrekskýrin Braut 112 á Tjörn á Skaga náði þessum merka áfanga um miðjan mars. Braut var fædd 12. september 2005, dóttir Stígs 97010, og átti sinn fyrsta kálf 23. október 2007 en alls bar hún 10 sinnum að meðtöldum tveimur fósturlátum. Þrátt fyrir þau áföll náði Braut að mjólka 101.351 kg mjólkur á ævinni en hún var felld þann 27. júní síðastliðinn sökum elli. Mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2011, 10.961 kg, en á árinu 2017 hjó hún nærri því er hún mjólkaði 10.699 kg. Mestum afurðum á einu mjólkurskeiði náði hún á sínu 10. og síðasta, 20.750 kg, enda var það langt en hún bar síðast 7. febrúar 2017.

Um mánaðamótin nóvember-desember bættist afrekskýrin Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi í hóp þeirra afreksgripa sem rofið hafa 100 tonna múrinn í æviafurðum. Nú um áramótin hafði hún mjólkað 100.449 kg mjólkur yfir ævina en hún var í 12,0 kg dagsnyt þann 28. desember. Jana 432 er fædd 8. mars 2005, dóttir Stígs 97010. Hún bar sínum fyrsta kálfi þann 18. september 2007 og hefur borið níu sinnum síðan þá, síðast 28. desember 2017. Mestum afurðum á einu ári náði Jana árið 2013 þegar hún mjólkaði 10.372 kg en hún náði einnig ársafurðum upp á meira en 10 þús. kg árið 2018. Mestu mjólkurskeiðsafurðir hennar eru á yfirstandandi mjólkurskeiði sem er æði langt, spannar orðið tvö ár. Hún er nú komin í 15.694 kg frá síðasta burði. Illa hefur gengið að koma kálfi í hana eftir síðasta burð en hún var síðast sædd 11. nóvember síðastliðinn og gæti því verið fengin. Afkomendur Jönu eru fjölmargir víða um land en hún skilaði nauti á stöð sem fékk dóm til framhaldsnotkunar sem reynt naut og því fékk sæði úr því mikla dreifingu. Þar er um að ræða Öllara 11066 en faðir hans var Ófeigur 02016.

Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 114.635 kg.

Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum á Hurðarbaki í Flóa og Flatey á Mýrum í Hornafirði, óskum við til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum gott samstarf á nýliðnu ári.

 

 

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2019

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2019 hafa verið reiknaðar og birtar hér á vef okkar, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu.

Afurðaskýrsluhald hefur nú verið skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt í rúmlega þrjú ár. Þetta hefur orðið til þess að skapa grunn að skýrsluhaldi í nautakjötsframleiðslu, nokkuð sem er nýtt hérlendis.

Undir árslok 2018 var byrjað að birta uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna og nær það uppgjör til þeirra búa sem halda holdakýr. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að þessar niðurstöður ná ekki yfir þær holdakýr sem eru á búum þar sem um er að ræða mjólkurframleiðslu. Þetta má líta á sem bæði kost og galla. Kosturinn er sá að uppgjörið tekur til sérhæfðra búa með holdakýr en gallinn er sá að ekki eru allar holdakýr með í uppgjörinu.

Skýrsluhald nautakjötsframleiðslunnar árið 2019 nær til 107 búa og þar af er að finna holdakýr af erlendu kyni á 73. Heildarfjöldi búanna eykst um tvö milli ára en búum þar sem er að finna holdakýr ef erlendu kyni fjölgar um sex. Kýr á þessum búum voru við uppgjör ársins 2.371 talsins, sem er fjölgun um 154 frá árinu áður. Meðalfjöldi kúa á búi var 22,2 samanborið við 21,1 árið áður og reiknast þessar kýr yfir í 18,1 árskú á bú en voru 17,1 árið 2018. Alls var um að ræða 1.944 burði á þessum búum á árinu 2019 sem jafngildir 0,82 burðum/kú. Þetta er fjölgun um 197 burði og aukning um 0,03 burði á kú milli ára.

Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2019

Heildarframleiðsla ársins á þessum 107 búum nam um 560 tonnum sem er aukning um 70 tonn milli ára. Þetta þýðir að þau framleiða ríflega 11% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 5.237 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 2.278. Sambærilegar tölur frá fyrra ári eru 4.650 kg og 2.041 gripur. Meðalfallþungi kúa frá þessum búum var 205,9 kg, en hann reyndist 203,8 kg árið áður og meðalþungi ungneyta var 252,6 kg en þau vógu til jafnaðar 246,1 kg 2018. Til jafnaðar var þeim fargað 739,6 daga gömlum eða 7,3 dögum eldri að meðaltali en á árinu 2018. Það jafngildir vexti upp á 325,9 g/dag, reiknað út frá fallþunga, en sambærileg tala frá fyrra ári var 320,5 g/dag. Til samanburðar var slátrað 9.721 (9.314) ungneytum á landinu öllu sem vógu 243,8 (240,2) kg að meðaltali við 744,3 (738,8) daga aldur. Tölur innan sviga eru frá 2018. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum heldur þyngri við lægri aldur að jafnaði. Heilt yfir eru ungneyti þyngri en árið áður enda alin heldur lengur.

Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 5,0 (4,8) á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er 4,2 (4,0). Flokkun er því betri á þessum búum til jafnaðar, rétt eins og árið áður. Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14. Meðalgripurinn á búunum í yfirlitinu er því nálægt því að flokkast í O.

Frjósemi

Eins og áður sagði fæddust 1.944 kálfar á þessum búum á árinu 2019 og reiknast meðalbil milli burða 463 (453) dagar. Það þýðir að meðalkýrin nær ekki einum burði á ári sem hlýtur að teljast grunnforsenda þess að um arðbæran búskap sé að ræða. Þegar við bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 16,1% (17,9%), 5,9% (7,5%) við aðra burði og vanhöld frá 0-6 mánaða 2,6% (2,6%) verður fjöldi kálfa til nytja töluvert langt innan við kálf á kú á ári. Tölur í svigum hér eru frá fyrra ári.

Sæðingum á þessum búum fjölgar umtalsvert frá fyrra ári og breytast frá því að teljast nánast óþekkt fyrirbæri yfir í að vera frekar fátíðar. Þannig voru sæddar 280 kýr á árinu 2019 samanborið við 124 kýr árið áður. Hlutfall sæddra kúa hækkar því í 11,9% úr 5,6%. Uppistaðan í sæddum kúm er kýr af erlendu kyni sem telja 208 af þessum 280 sem sæddar voru. Til jafnaðar voru þessar kýr sæddar 1,6 (1,4) sinnum og að meðaltali liðu 137,6 (127,2) dagar frá burði til 1. sæðingar. Þær kýr sem eru sæddar svo löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili. Þessa aukningu sem sjá má í sæðingum má án efa rekja til tilkomu sæðis úr nýjum Angus-nautum tilkomnum með innflutningi fósturvísa frá Noregi. Til þeirra gripa á líka að vera hægt að sækja meiri vaxtarhraða, betri flokkun auk betri móðureiginleika en horft var sérstaklega til þessara hluta við val nauta þegar fósturvísarnir voru keyptir frá Noregi.

Hins vegar þarf að gera verulegt átak varðandi frjósemi holdakúastofnsins í landinu. Bil milli burða er alltof langt en grundvallarforsenda þess að þessi grein geti náð meiri arðsemi hlýtur að vera sú að hver kýr skili sem næst einum lifandi kálfi á hverju ári. Þarna eru miklir möguleikar í að gera betur en nú er.

Mestur þungi og vöxtur

Þyngsta ungneytið sem slátrað var árinu var naut nr. 1160 á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Sá gripur var holdablendingur af Angus-kyni, undan Anga 95-400 og vóg 583,7 kg er honum var slátrað við 28,8 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN R+3+. Í töflu 2 má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 450 kg fallþunga á árinu 2018 en þau voru sjö talsins og frá þremur búum, Breiðabóli á Svalbarðsströnd, Mýrum í Álftaveri og Nýjabæ undir Eyjafjöllum.

Þyngstu ungneyti á árinu 2019 (yfir 450 kg fall).

Gripur

Faðir

Stofn

Aldur, mán.

Þungi, kg

Flokkun

1160 (naut)

Breiðaból

Angi 95400

AA x IS

28,8

583,7

UN R+3+

1140 (naut)

Breiðaból

Angi 95400

AA x IS

29,0

553,3

UN R+4

1148 (naut)

Breiðaból

Angi 95400

AA x IS

29,8

519,5

UN R4

0007 (naut)

Mýrar

Angi 95400

AA x IS

28,8

501,7

UN R+3-

1178 (naut)

Breiðaból

Arður 95402

IS x AA

27,4

466,6

UN R3-

0932 (naut)

Nýibær

0804 (AA x IS x LI)

LI x AA x IS

24,8

461,7

UN U3-

1180 (naut)

Breiðaból

1010 (IS)

IS

28,3

453,0

UN R-2

 

Í töflu 3 má sjá þau ungneyti sem náðu mestum daglegum vexti reiknuðum út frá fallþunga. Miðað er við að gripirnir hafi náð a.m.k. 15 mánaða aldri við slátrun og reiknað er með 20 kg fallþunga við fæðingu. Mestan vöxt ársins átti naut númer 1020 í Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Því  var slátrað tæplega 17 mánaða og vóg fallið þá 352,3 kg. Nautið var 29% Limousine, 25% Angus og 46% íslenskt og flokkaðist í UN R3. Athygli vekur gripur númer 1282 á Kvíabóli sem var alíslenskur Boltasonur 09021 en Bolti er þekktur fyrir að gefa stóra gripi með mikinn vöxt.

Ungneyti með mestan daglegan vöxt á árinu 2019 (yfir 600 g/dag).

Gripur

Faðir

Stofn

Aldur, mán.

Þungi, kg

Flokkun

Vöxtur, g fall/dag

1020 (naut)

Nýibær

0843 (IS x AA x LI)

LI x IS x AA

16,8

352,3

UN R3

658,0

0623 (naut)

Lækjartún

0566 (IS x AA)

IS x AA

18,6

386,4

UN R+3-

655,5

1160 (naut)

Breiðaból

Angi 95400

AA x IS

28,8

583,7

UN R+3+

653,2

1282 (naut)

Kvíaból

Bolti 09021

IS

19,2

374,8

UN O+2+

616,0

1140 (naut)

Breiðaból

Angi 95400

AA x IS

29,0

553,3

UN R+4

613,7

1322 (naut)

Hallland

Angi 95400

AA x IS

21,4

411,7

UN R2

609,2

0878 (naut)

Nýibær

0788 (IS x AA x LI)

IS x AA x LI

21,3

406,2

UN R+3+

603,4

 

Vonandi verður birting niðurstaðna skýrsluhalds nautakjötsframleiðslunnar til þess að efla þessa framleiðslu og auka arðsemi hennar. Niðurstöðurnar sýna okkur glöggt að víða er vel gert en jafnframt að tækifæri eru til þess að gera betur.

Við skoðun á þessum tölum sem og listum yfir þá gripi sem eru þyngstir og vaxa mest er greinilegt að holdablendingarnir skara fram úr. Þar er í raun ekki um nein ný vísindi að ræða. Eðlilega taka gripir af kynjum sem hafa verið ræktuð m.t.t. vaxtar og kjötgæða, gripum sem eingöngu eru ræktaðir til mjólkurframleiðslu fram. Þetta ætti hins vegar að vera þeim sem stunda framleiðslu nautakjöts mikil hvatning til þess að nýta það erfðaefni sem nú stendur til boða úr gripum fæddum á einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti. Þar er um að ræða gripi sem taka gömlu Angus- og Limousine-gripunum mikið fram hvað snertir vaxtargetu og kjötgæði auk þess sem þeir voru valdir m.t.t. mæðraeiginleika. Þeir sem halda holdakýr ættu því eindregið að notfæra sér sæðingar ef nokkur kostur er. Þá er full ástæða til þess fyrir mjólkurframleiðendur að skoða hvort svigrúm er til þess að nota holdasæði í hluta kúnna og selja blendingana kjötframleiðendum nýfædda. Margt bendir til þess að nú sé lag, nægur fjöldi kvígna til endurnýjunar fyrir hendi auk þess sem brýnt er að draga úr endurnýjunarhraðanum með arðsemi að leiðarljósi. Ending kúnna þarf að aukast því uppeldi kvígna er kostnaðarsamt auk þess sem kýr á 4.-6. mjólkurskeiði eru í blóma lífsins. Þá eiga þær að standa á hápunkti í framleiðslu í stað þess að meðalkúnni er nú fargað um þriðja burð.

Að lokum er full ástæða til þess að óska þeim framleiðendum sem náð hafa góðum árangri við framleiðslu á nautakjöti til hamingju með þann árangur og vart á neinn hallað þó ábúendur á Breiðabóli, Nýjabæ, Mýrum, Kvíabóli, Halllandi og Lækjartúni séu sérstaklega nefndir í því sambandi.

 

 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/gj

/sk