Bógkreppa – tilkynningar um vansköpuð lömb

Þó ekki sé algengt að lömb fæðist vansköpuð þá gerist það af og til. Stundum er um að ræða tilfallandi vansköpun en einnig getur verið um erfðagalla að ræða. Minnt er á að æskilegt er að fá upplýsingar um öll vansköpuð lömb sem fæðast undan sæðingahrútunum, ef hugsast gæti að um erfðagalla sé að ræða. Sérstaklega er mikilvægt að fá upplýsingar um öll lömb sem sýna einkenni bógkreppu, hvort sem þau eru undan sæðingastöðvahrútum eða heimahrútum. Söfnun á upplýsingum um þau er partur af rannsóknarverkefni. Hér eru nokkrir punktar varðandi bógkreppu og rannsóknir á henni:

Bógkreppa er erfðagalli. Helstu einkennin eru að framfætur eru stuttir, snúnir/eða skekktir. Einkennin geta verið missterk. Skekkjurnar eru yfirleitt frá kjúku og að bóghnútu. Oftar en ekki eru fætur svo krepptir að lambið kemst ekki á legg. Ef lambið kemst á legg er framfótarstaðan gjarnan óeðlilega gleið og lambið verður hjólbeinótt.

Í gangi er rannsóknarverkefni sem RML, Matís og Tilraunastöð HÍ á Keldum standa að og hefur m.a. miðað að því að lýsa gallanum meinafræðilega og þróa erfðapróf til að hægt sé að skima fyrir honum.

Þegar hefur verið þróað svokallað setraðapróf sem á að geta sagt fyrir með góðum líkum hvort gripir séu arfberar gallans eða ekki. Til að fá betri reynslu á þetta próf er æskilegt að fá sýni úr lömbum sem talið er víst að séu bógkreppulömb. Jafnframt er æskilegt að fá sýni úr foreldrum þeirra.

Ef fæðist bógkreppulamb væri mjög gott að fá senda mynd af lambinu og upplýsingar um ættir lambsins. Sýni má taka með sömu hylkjum og nýtt eru vegna riðuarfgerðagreininga en einnig er hægt að taka sýni með öðrum hætti. Upplýsingar/tilkynningu er best að senda á Eyþór Einarsson hjá RML (ee@rml.is / 862-6627) og tekur hann einnig við sýnunum.

Þá er æskilegt að fá nokkur hræ af bógkreppulömbum sem ekki hafa verið fryst. Hræin er best að senda til Keldna þar sem Charlotta Oddsdóttir tekur á móti þeim (charlotta@hi.is).

Í haust verður í boði að fá greind sýni úr gripum sem menn vilja athuga hvort séu arfberar bógkreppu. Kostnaður við greiningu liggur ekki fyrir en áætlað að hann verði 3.000 til 4.000 kr. pr. sýni. Hægt er að taka þessi sýni núna í vor og senda til Eyþórs.

/okg