Breytt verklag við förgun mjólkurkúa

Eftirfylgni með reglum varðandi mjólkandi kýr sem koma til slátrunar hefur verið hert til þess að stuðla að aukinni velferð. Sláturleyfishafar hafa því breytt hjá sér verklagi varðandi flutninga á þann hátt að mjólkurkýr verða sóttar eins seint og hægt er að deginum og samdægurs þegar og þar sem því verður við komið. Einnig munu mjólkurkýr verða teknar fyrst að morgni til slátrunar í stað ungneyta. Þessar ráðstafnir snerta bændur í einhverjum tilvikum og er óskað eftir því við bændur að virkja eftirfarandi verklag:

• Mjólkandi kýr verði mjólkaðar heima á búi, eins nærri flutningi í sláturhús og auðið er.
• Merkt verði sérstaklega á afhendingarseðli ef viðkomandi kýr mjólkar meira en 20/kg á dag eða ef styttra en þrír mánuðir eru frá burði. Þessar kýr munu verða í algjörum forgangi í slátrun.
Þetta er nauðsynlegt til þess meðal annars að bæta velferð mjólkandi kúa þar sem aðstaða til að mjólka kýr í sláturhúsréttum er takmörkuð eða engin.

Sláturleyfishafar minna einnig á að reglur varðandi ungviði verði virtar, þ.e. að yngri en 7 daga gamlir ungkálfar séu ekki sendir til slátrunar. Skrokkum af kálfum sem koma til slátrunar og hafa ekki náð 7 daga aldri verður fargað.