Erfðamengisúrval: Búið að greina fyrstu sýni hérlendis

Í vetur hófst sýnataka úr kvígum samhliða einstaklingsmerkingu og sýnataka því nánast alfarið í höndum bænda sjálfra í dag. Eins og jafnan þegar leitað er til bænda um samstarf hafa viðbrögð verið bæði jákvæð og góð. Þegar þetta er skrifað er búið að merkja og skrá í Huppu 1.106 gripi með sýnatökumerkjum. Sýnunum er safnað með mjólkurbílunum, þau síðan send til MS á Bitruhálsi í Reykjavík og þangað sækir starfsfólk Matís sýnin til greiningar. Með þessu góða samstarfi við Auðhumlu/MS hefur tekist að koma á einu skilvirkasta, einfaldasta og þægilegasta söfnunarkerfi DNA-sýna í heiminum.

Nú er búið að greina fyrstu 48 sýnin hjá Matís og niðurstöður komnar inn í gagnagrunninn Skjöldu hjá RML. Skjalda heldur utan um niðurstöður arfgerðargreininga og gögn vegna erfðamengisúrvals í nautgriparækt. Þar er nú að finna arfgerðargreiningar á hátt í þrettán þúsund gripum. Hjá Matís eru þessar greiningar komnar á fullt og má reikna með að í byrjun verði greind 96 sýni á viku en það síðan aukið eftir því sem sýnum fjölgar. Reiknað er með að greind verði um 8-10 þús. sýni á ári. Svo skemmtilega vill til að við greiningar hjá Matís starfar Þorri Þórarinsson frá Keldudal í Hegranesi en systir hans, Þórdís, vinnur að þróun og uppsetningu erfðamatsins hjá RML. Faðir þeirra er svo Þórarinn Leifsson, bóndi í Keldudal og formaður fagráðs í nautgriparækt, og því ekki hægt að segja annað en sú fjölskylda leggi sitt af mörkum til framgangs nautgriparæktarinnar.

Niðurstöður arfgerðargreininganna eru síðan nýttar til vinnslu á erfðamati sem taka mun við af hefðbundnu kynbótamati í haust ef allt gengur eins og áætlanir gera ráð fyrir. Fyrstu niðurstöður benda til þess að erfðamat mun auka öryggi matsins þó nokkuð og því hyllir undir umbyltingu í erfðaframförum og á ræktunarskipulagi nautgriparæktarinnar.