Ert þú kúabóndi?

Ef svarið er já að þá óskum við eftir þátttöku þinni í rekstrarverkefni sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er að fara af stað með. Þar er meginmarkmiðið að kúabú fái heildstæða greiningu á sínum rekstri og safna um leið ítarlegum hagrænum tölum í mjólkurframleiðslu sem hafa verið óaðgengilegar um árabil.

Markmið og ávinningur.
Rekstrarafkoma bús er lykilþáttur í að bændur geti reiknað sér ásættanleg laun fyrir sína vinnu og um leið haft svigrúm til að byggja upp jarðirnar sínar. Markmiðið er að ná a.m.k. 100 búum inn í verkefnið eða um 20% af kúabúum landsins. Hvert bú mun fá skýrslu um sinn rekstur og sjá hvar það stendur í samanburði við önnur bú í verkefninu. Tengd verða saman rekstrar- og skýrsluhaldsgögn búsins úr Huppu og Jörð sem mun bjóða upp á margvíslegan samanburð.

Greining rekstrarþátta.
Þar má t.d. nefna breytilegan kostnað búsins en hann er sá kostnaður sem breytist með breyttu framleiðslumagni. Hann getur samt verið mjög misjafn á milli búa og eftir árum. Hver er breytilegi kostnaðurinn hjá þér á hvern innveginn lítra?

Það er ljóst að eftir því sem kostnaðurinn er lægri því meiri tækifæri eru til viðhalds og framkvæmda en ekki síður til að reikna sér hærri laun. Eins mun búið þola meiri skuldsetningu og hafa þ.a.l. meiri möguleika til stærri fjárfestinga.

Fjármagnskostnaður.
Jafnframt er áhugavert fyrir bændur að skoða nánar vaxtakostnað sinna lána. Ertu að greiða hærri vexti en aðrir bændur að jafnaði? Eru þar sóknarfæri í bættum rekstri?

Þannig mætti halda lengi áfram um atriði sem bændur munu geta skoðað sér til hagsbóta. Hér er einnig kjörið tækifæri til að fá það staðfest að búið sé einstaklega vel rekið.

Nánar um gögn og gagnasöfnun.
Í þessu verkefni verða skoðuð rekstrargögn áranna 2017-2019. Þátttakendur munu því þurfa að skila rekstrargögnum fyrir þessi þrjú ár til okkar. Æskilegast er að fá lykluð gögn úr bókhaldsforritinu dkBúbót en einnig verður unnið úr landbúnaðarframtölum, séu sundurliðuð gögn ekki til staðar. Fyllsta trúnaðs verður gætt og skilyrði persónuverndarlaga uppfyllt.

Gagnasöfnun mun hefjast í júní og ná fram í miðjan september. Eftir það verða gögnin tekin saman og skýrsla afhent hverju búi. Stefnan er að sú skýrsla verði afhent þátttakendum í verkefninu í nóvember.

Fjármögnun verkefnis.
Verkefnið fékk vilyrði fyrir styrk úr þróunarsjóði nautgriparæktarinnar sem mun standa undir hluta af kostnaði við verkefnið. Þátttökugjald verður því sem nemur 3ja klst vinnu eða 24.000 kr án vsk. Það verður innheimt eftir að búið hefur fengið eigin skýrslu og greiningu.

Þeir bændur sem hafa áhuga á að vera með í þessu verkefni eru hvattir til að hafa samband sem fyrst við einhvern af starfsmönnum verkefnisins:

  • Runólfur Sigursveinsson s: 516-5039 eða rs@rml.is
  • María Svanþrúður Jónsdóttir s: 516-5036 eða msj@rml.is
  • Sigríður Ólafsdóttir s: 516-5041 eða so@rml.is
  • Kristján Óttar Eymundsson s: 516-5032 eða koe@rml.is
  • Guðfinna Harpa Árnadóttir s: 516-5017 eða gha@rml.is

msj/okg