Fleiri lömb til nytja – könnun lögð fyrir sauðfjárbændur

Á öllum sauðfjárbúum, bæði stórum og smáum, er afar mikilvægt að sem flest lömb sem verða til nái að lifa til haustsins og koma til nytja. Í þessu sem öðru er talsverður munur á milli búa. Í niðurstöðum skýrsluhalds árið 2019 sést að á landsvísu eru fædd lömb eftir hverja fullorðna á 1,83 lömb en 1,65 lömb komu til nytja að hausti. Hjá veturgömlu ánum voru fædd lömb 0,92 og 0,67 lömb komu til nytja. Það þýðir að hjá hverjum 100 fullorðnum ám misfarast 18 lömb og hjá hverjum 100 veturgömlum ám misfarast 25 lömb. Miðað við fjárfjölda í landinu gætu þetta verið um 75.000 lömb sem misfarast, allt frá því í móðurkviði og fram á haustdaga. Árin 2016-2018 eru vanhöld lamba eftir hverjar 100 ær/veturgamlar á mjög svipuðu róli og 2019.  

Vitað er að stór hluti affalla verður að vorinu og mjög mörg bú gætu aukið afurðir ánna ef tækist að minnka afföll lamba að vori. 

Eitt aðalmarkmiða þessa verkefnis er að greina betur ástæður þess að svona mörg lömb misfarast að vorinu, með því að leggja könnun fyrir alla sauðfjárbændur.  

Könnunin verður opnuð 17. febrúar og verður hægt að taka þátt til og með 3. mars n.k.. Vonast er eftir því að þátttaka verði sem almennust og dreifist á bú af öllum stærðum og gerðum um landið.  

Á grundvelli niðurstaðna könnunar verða útfærðar leiðbeiningar og leiðbeinandi verkferlar. Niðurstöður verða kynntar um miðjan apríl og verður það nánar auglýst síðar.  

Verkefnisstjóri  er Árni B. Bragason en auk hans munu Sigríður Ólafsdóttir, Auður Ingimundardóttir og Eyþór Einarsson koma að úrvinnslu og gerð leiðbeinandi efnis. Guðfinna Harpa Árnadóttir, Fanney Ólöf Lárusdóttir og Lárus G. Birgisson hafa jafnframt komið að undirbúningi þessa verkefnis og geta veitt upplýsingar ef þarf við að svara könnuninni.

Góð þátttaka bænda mun styrkja verulega gerð gagnlegra leiðbeininga og skorum við á alla að taka þátt. 

Tengill á könnunina: https://forms.office.com/Pages/ResponsePage.aspx?id=N99PLJZAhEqf23Zl60FW5HCfYLBjqcFKqz02rKGEey5UQVExWVJZMEZRM0VRVzBIUDBPSUhRUjlXUyQlQCN0PWcu