Kálfar undan nýju Angus-nautunum

Eftir Ditte Clausen.

Árið 2019 voru sæddar um það bil 155 holdakýr og kvígur með sæði úr “nýju norsku” Angus-nautunum og ættu kálfarnir sem þá urðu til að fæðast um mánaðamótin maí-júní. Það verður spennandi að sjá þá kálfa sem hið nýinnflutta erfðaefni skilar, en nú eru vel yfir 20 ár síðan Íslendingar fengu síðast nýtt erfðaefni í holdanautastofninn í landinu. Við hvetjum því alla, bæði holdanautabændur og mjólkurframleiðendur, sem eiga von á kálfum undan "norsku” Angus-nautunum að vigta kálfana við fæðingu. Þar sem hægt er að ná kálfinum er hann vigtaður innan við sólarhring eftir fæðingu og krefst það ekki mikillar tækni því einföld baðvigt dugar. Það þarf að núllstilla vigtina og vigta svo bóndann fyrst. Síðan tekur bóndinn upp kálfinn og stígur aftur á vigtina. Til að finna þyngd kálfsins er þyngd bóndans dregin frá tölunni sem þá birtist. Mikilvægt er að vigta bóndann í hvert skipti því suma daga borðar hann kannski meira en aðra. :) 

Fyrstu kálfarnir úr verkefninu þar sem holdakýr voru sæddar eftir samstillingu, eru fæddir. Þrír fæddust í Árbót í Aðaldal í apríl og eru þeir flottir og sprækir. Einn er undan Anga og hinir tveir undan Arði. Meðfylgjandi myndir eru af kálfunum, þá sólarhringsgömlum með mæðrum sínum.  Myndir

Vorið 2020 fór áframhaldandi verkefni af stað með styrk úr fagfé nautgriparæktarinnar. Þá verður prófuð ný samstillingaraðferð í kúm í Árbót, en sú aðferð hefur skilað góðum árangri hjá holdanautabændum erlendis. Einnig verða sæddar kvígur í Hofsstaðaseli í Skagafirði, þar sem þær verða valdar út frá þroska, vigtaðar og holdafar þeirra metið 2-3 sinnum fyrir sæðingu. Kvígurnar læra þá á básinn í leiðinni og verða vanari að láta reka sig í hann þegar kemur að sæðingu. Áætlað er að sæða kýr og kvígur í lok júlí.

Sett inn:hh