Kynbótamat fyrir lífþunga, fallþunga, ómvöðva og ómfitu birt í Fjárvís

Nú er farin í loftið stór breyting á framsetningu kynbótamats í Fjárvís. Ásamt hinum hefðbundnu eiginleikum - gerð, fitu, frjósemi og mjólkurlagni - birtast nú einnig sex nýjar kynbótamatseinkunnir: Ómvöðvi, ómfita, fallþungi bein áhrif, fallþungi mæðraáhrif, lífþungi bein áhrif og lífþungi mæðraáhrif.

Bændur geta nú kíkt inn í Fjárvís, valið - Yfirlit - Kynbótamat - og glöggvað sig á þessum nýju einkunnum á sínum búum. Rétt er að taka fram að eiginleikar sem vegnir eru saman í heildareinkunn gripa sem birtist í Fjárvís hafa ekki breyst. Þar gildir gerð 16,7%, fita 16,7%, frjósemi 33,3% og mjólkurlagni 33,3% eins og verið hefur. Birting á skrokkgæðaeinkunn hefur verið tekin út en sú einkunn var einfaldlega 50% kynbótamat fyrir gerð og 50% kynbótamat fyrir fitu. Samsetning heildareinkunnar er til skoðunar og mun taka breytingum eftir umfjöllun fagráðs í sauðfjárrækt.

Ómvöðvi og ómfita
Lengi hefur legið fyrir að nota ómmælingar úr líflambaskoðunum sem tengda eiginleika í kynbótamatskeyrslum á kjötmatseiginleikunum gerð og fitu. BS verkefni Jóns Hjalta Eiríkssonar (2014) leiddi í ljós að með því að keyra þessa fjóra eiginleika saman eykst öryggi kynbótamats fyrir gerð og fitu á ungum hrútum og það lagar bjögun á gerðarmati hrúta sem mikið er sett á undan. Gögnin sem eru notuð til að reikna matið sem er nú birt í Fjárvís eru frá árunum 2011-2022. Þau innihalda sláturmat 6,16 milljón lamba ásamt ómmælingum 860 þúsund lamba (tæp 6% lamba eru með sláturmat og ómmælingu). Í líkönum fyrir gerð, fitu, ómvöðva og ómfitu er leiðrétt fyrir þungaflokki, kyni og bú-árs áhrifum. Að bæta þessum upplýsingum við kynbótamatið mun því fyrst og fremst styrkja kynbótamat fyrir gerð og fitu sem eru eftir sem áður ræktunarmarkmiðseiginleikarnir en það mun einnig gefa bændum nákvæmari upplýsingar um skrokkgæðin.

Fallþungi og lífþungi
Einnig er nú komið í gagnið kynbótamat fyrir þunga haustlamba sem þróað var af Elsu Albertsdóttur í samstarfi við Emmu Eyþórsdóttur, Eyjólf Ingva Bjarnason og Eyþór Einarsson. Birtar eru fjórar einkunnir:
• Fallþungi bein áhrif
• Fallþungi mæðraáhrif
• Lífþungi bein áhrif
• Lífþungi mæðraáhrif

Einkunnir fyrir bein áhrif eiga að vera mat á vaxtargetu lambanna sjálfra. Einkunnir fyrir mæðraáhrif eiga að vera mat á afurðasemi áa/dætra eða spá út frá ætterni. Í gögnunum sem eru notuð til að reikna matið sem nú er birt eru 3,8 milljónir fallþungamælingar og 2,16 milljónir lífþungamælingar haustlamba á árunum 2015-2022. Einungis 35% lamba í gögnunum eru með bæði líf- og fallþungamælingu (1,7 milljón af 4,86 milljónum lamba). Í líkönum fyrir þunga er leiðrétt fyrir bú-árs áhrifum, kyni, burði lamba, fjölda lamba sem gengu með móður, aldri móður og aldri lamba við vigtun/slátrun.

Stuðst er við fyrstu lífþungamælingu sem skráð er í Fjárvís þannig að hjá þeim bændum sem skrá lífþunga reglulega yfir haustið þá er kynbótamat fyrir lífþunga að segja talsvert um mæður lambsins og hvernig lömbin eru að koma úr sumarhögum.

Rétt er þó að hafa í huga að hér er ræktunarmarkmiðseiginleikinn fallþungi, enda fá bændur greitt samkvæmt fallþunga en ekki lífþunga. Að birta einnig kynbótamat fyrir lífþunga mun þó vonandi geta nýst bændum í ræktunarstarfinu og ætti að gefa nákvæmari upplýsingar um gripina. Sem dæmi má nefna verður nú mögulegt að reikna kynbótamat fyrir þunga oftar yfir haustið og því gætu þeir bændur sem vigta öll lömb beint úr sumarhögum og skrá strax í Fjárvís fengið vísbendingar um þungamat út frá lífþungamatinu í næstu keyrslu þó upplýsingar um fallþunga séu ekki tiltækar fyrr en síðar um haustið.

Núverandi mat fyrir mjólkurlagni byggir á afurðastigi áa fyrstu fjögur æviárin. Afurðastig er reiknað fyrir ær innan hvers bús og er leiðrétt fyrir öllum helstu umhverfisþáttum sem hafa áhrif á haustþunga lamba. Í útreikningum afurðastigs (sem eru all flóknir) er notuð seinasta þekkta lífþyngd lamba sem ekki hafa fallþunga og því gefur mjólkurlagnismatið í núverandi mynd ef til vill ekki nógu skýra mynd á lömb sem eru bötuð heimavið eftir sumarbeit í afrétti. Vonir standa til að þessar nýju einkunnir (þar sem notuð er fyrsta tiltæka lífþungamæling) fyrir mæðraáhrif fallþunga og lífþunga varpi betra ljósi á afurðagetu áa.