Móttaka pantana hafin í átaksverkefnið Arfgerðargreiningar vegna riðu

Hér á heimasíðunni er búið að opna fyrir pantanir í átaksverkefni í arfgerðagreiningum á sauðfé. Hér á vefnum og í næsta Bændablaði verður haldið áfram að koma á framfæri upplýsingum um verkefnið sem gengur út á að skoða í 6 sæti á príongeninu (sæti: 136, 137, 138, 151, 154 og 171). Í þessum pistli er að finna leiðbeiningar um hvað menn ættu að hafa í huga þegar þátttaka er undirbúin og ákvörðun tekin um hvaða gripi eigi að taka sýni úr og úr hversu mörgum. Sýnin sem tekin verða eru úr eyra. Notuð er séstök töng sem virkar líkt og tangir til að setja merki í eyra (hér fer merkið bara í gegnum eyrað og varðveitist í hylki). Verð á greiningu pr. sýni sem er niðurgreitt af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar er 850 kr. Ef þátttaka verður umfram það sem hægt er að úthluta er hægt að fá í gegnum þetta verkefni greiningar á 2.350 kr. Bæði verð eru án vsk. og miðast við að gengi íslensku krónunnar sé 150 kr = 1 EUR.

Mælt er með að sem flestir taki sýni úr hrútunum sínum þannig að sem stærstur hluti hrútaflotans í landinu verði greindur.

Ef menn eru tilbúnir að ganga lengra er æskilegt að taka nokkur sýni úr hjörðinni, úr völdum ám sem gætu endurspeglað ólíkar ættarlínur innan hjarðar og úr ám sem mikið er til út af líkt og hrútsmæður.

Á mestu áhættusvæðum gagnvart riðuveiki, er meira áríðandi að kortleggja stærri hluta stofnsins, þar sem það er bæði mikilvægt að finna sem flesta gripi sem hafa hugsanlega verndandi og lítið næmar arfgerðir en líka mikilvægt að útrýma áhættuarfgerðinni hratt. Hér er vissulega markmiðið að koma upp sem þolnustum stofni gagnvart riðuveiki á sem stystum tíma. Hér ættu menn að leggja áherslu á yngstu árgangana og taka úr völdum eldri ám að auki. Að ná þannig greiningu á allt að 70% hjarðarinnar væri frábært og þar með fengist geysilega góð yfirsýn um stofninn. Ær sem geta þá setið á hakanum eru kindur sem fyrirsjánlega eru á leið út úr ræktun fljótlega og ær sem ekki er sett á undan.

  • Mælt er með því að bú sem telja má ræktunarlega mikilvæg, vegna áhrifa þeirra á kynbótastarfið í landinu með sölu á gripum frá búinu og/eða inn á sæðingastöðvarnar taki einnig stór skref. Æskilegt er að þau greini einnig sem stærstan hluta af ræktunarkjarnanum í stofni sínum. Þessi bú ættu að líka að leggja áherslu á að losa sig við áhættuarfgerðina. Þá er, líkt og nefnt er að ofan, best að forgangsraða þannig að leggja áherslu á yngstu árgangana auk valinni eldri áa. Vissulega gildir hér að því fleiri sýni, því meiri upplýsingar, en þó ætti ekki að vera brýn þörf á að taka úr meira en 70% af stofninum til að fá ákaflega góða mynd af honum.
  • Ef taka á mörg sýni úr sömu hjörð, t.d. yfir 100 sýni, er mælt með því að tvískipta sýnatökunni. Taka fyrst úr hrútum og þá ám úr eldri árgöngunum sem fyrir liggur að taka úr. Þannig er hægt að sleppa ám í seinni umferðinni sem fyrirsjáanlegt er að séu hlutlausar ef báðir foreldrar eru hlutlausir. Innan skamms verður birtur listi yfir þá sæðingastöðvahrúta sem annað hvort hafa verið greindir eða liggur fyrir að greina núna fljótlega.
  • Margir munu velta fyrir sér, hvað skal gera ef búið er að taka sýni úr hrútum á búinu með staðalgreiningu sem aðeins skoðar tvö sæti (líkt og staðalgreining Matís á sætum 136 og 154), þannig að verndandi sætið er ógreint? Í slíkum tilfellum mætti spara endursýnatöku með því að taka úr foreldrum ef þeir eru á lífi. Í hjörðum þar sem taka á mörg sýni og stefnt er að tvískiptingu sýnatökunar væri hægt að taka þessa hrúta í endurgreiningu í seinni umferðinni. Rétt er að hafa í huga að ef búið er að greina gripinn áður og hann er hlutlaus samkvæmt sætum 136 og 154 getur hann samt sem áður borið verndandi arfgerð. Minni líkur eru á því ef gripurin er arfblendinn fyrri lítið næmu eða áhættuarfgerðinni. Gripir sem eru arfhreinir fyrir t.d. lítið næmu arfgerðinni leyna alveg örugglega ekki fleiri breytileikum – eru örugglega ekki með ARR arfgerðina eða T137.
  • Lágmarks sýnafjöldi til að fá úthlutað niðurgreiðslu greininga miðast við 25 stk. Ef kemur til þess að þurfi að skera niður fjölda niðurgreiddra sýna pr. bú, þá verður sett hámark við 300 kindur á viðkomandi hjörð.
  • Það ræðst síðan af þátttöku hvað verður hægt að úthluta mörgum greiningum til hvers og eins á niðursettu verði. Ef nauðsynlegt reynist að forgangsraða verður tekið tillit til hagsmuna rannsóknarinnar og ræktunarstarfsins og því getur hlutfall niðurgreiddra sýna orðið misjafnt milli búa. Bændur geta að sjálfsögðu sent fleiri sýni ef þeir óska eftir og greiða þá fullt verð fyrir þau.
  • Ef þátttaka verður umfram það sem hægt verður að bjóða upp á af niðurgreiddum sýnum þá munu bændur engu að síður hafa kost á að kaupa greiningar í gegnum verkefnið á góðum kjörum í krafti fjöldans. Mun þá ( verð pr. sýni vera 2.350 kr./sýni án vsk. með fyrirvara um verulega gengisbreytingar(miðað við að gengið 150 kr. á móti 1 EUR).

Sjá nánar: 
Panta þátttöku í verkefninu
Upplýsingar um arfgerðargreiningar vegna riðu

/okg