Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni í nýliðnum júní

Hörgur frá Hlöðum í Hörgársveit
Hörgur frá Hlöðum í Hörgársveit

Niðurstöður afurðaskýrslnanna í mjólkurframleiðslunni nú í júní hafa verið birtar á vef okkar. Þegar þær niðurstöður urðu til um hádegi þann 11. júlí, höfðu skýrslur borist frá 543 búum. Reiknuð meðalnyt 25.468,9 árskúa á þessum búum, var 6.343 kg á síðustu 12 mánuðum. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá á fyrrnefndum tíma, var 46,9. Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða skil frá öllum búum sem eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu og taka mið af því þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar.

Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og að undanförnu, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar mjólkaði að jafnaði 8.833 kg. á tímabilinu sem um ræðir. Annað búið í röðinni var einnig hið sama og við höfum séð síðasta tímann, bú Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal þar sem meðalkýrin skilaði 8.699 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja búið á listanum nú var bú Gunnbjarnar ehf. í Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Á því búi reiknaðist meðalnyt árskúnna 8.418 kg. á umræddu tímabili. Þetta bú var í fjórða sæti fyrir mánuði. Í fjórða sæti á listanum að þessu sinni var bú Friðriks Þórarinssonar á Grund í Svarfaðardal en það var í sjötta sæti seinast. Á Grund var meðalnytin 8.362 kg. nú að loknum júní. Fimmta búið við uppgjörið nú var Hvanneyrarbúið í Andakíl, sem var í þriðja sæti við maílok en þar mjólkaði meðalárskýrin 8.326 kg. eftir að júní hafði runnið sitt skeið.

Nythæsta kýrin við uppgjörið nú við lok júnímánaðar var Króna 131 (f. 198 undan Stíg 97010) í Ásgarði í Reykholtsdal í Borgarfirði, en nyt hennar reyndist 13.161 kg. á 12 mánaða tímabili. Önnur í röðinni var Korna 150 (f. Hræsingur 98046) á Brúsastöðum í Vatnsdal, sem mjólkaði 13.139 kg. á síðustu 12 mánuðum. Þriðja í röðinni nú var kýr nr. 753 (f. Gráni 608, dóttursonur Ófeigs 02016 og sonarsonur Lóa 01008) í Flatey á Mýrum við Hornafjörð, en hún skilaði 13.071 kg. á tímabilinu sem um ræðir.

Alls náðu 87 kýr á búunum, sem afurðaskýrslum fyrir júní hafði verið skilað frá um hádegi þ. 11. júlí, að mjólka 11.000 kg. og þar yfir á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 20 yfir 12.000 kg. nyt á tímabilinu og af þeim náðu þrjár hærri nyt en 13.000 kg. síðustu 12 mánuðina. 

Sjá nánar:

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar

/sk