Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum október

Lómur frá Gerðum í Flóa, sonur Knattar 16006 og Lóu 1110.
Lómur frá Gerðum í Flóa, sonur Knattar 16006 og Lóu 1110.

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn október, hafa nú verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggjast á skilum eins og þau voru laust eftir hádegið þann 11. nóvember.

Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 484 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 125 búa þar sem var framleitt nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.653,0 árskúa á búunum 484 var 6.300 kg. eða 6.457 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum 484 búum var 50,9.

Mest meðalnyt árskúa síðustu 12 mánuðina var á búi Laufeyjar og Þrastar á Stakkhamri 2 á Snæfellsnesi þar sem árskýrin mjólkaði að jafnaði 8.815 kg. Annað í röðinni var bú Gísla og Jónínu á Stóru-Reykjum í Flóa þar sem hver árskýr skilaði að meðaltali 8.568 kg. á tímabilinu. Í þriðja sæti var bú Göngustaða ehf. á Göngustöðum í Svarfaðardal þar sem meðalárskýrin mjólkaði 8.520 kg. síðustu 12 mánuði. Fjórða reyndist vera bú Dalbæjar 1 ehf. í Dalbæ 1 í Hrunamannahreppi en þar var meðalnyt árskúnna 8.549 kg. á umræddu tímabili. Í fimmta sæti að þessu sinni var bú Guðrúnar og Gunnars á Búrfelli í Svarfaðardal, þar sem nyt hverrar árskýr var 8.520 kg. að meðaltali.

Nythæsta kýrin síðustu 12 mánuði var Loppa 2490 (f. Þyrnir 15041) í Lambhaga á Rangárvöllum sem mjólkaði 14.257 kg. á tímabilinu. Önnur að þessu sinni varð kýr nr. 1450 (f. Gýmir 11007) í Stóru-Mörk 3 undir Eyjafjöllum en hún skilaði nyt upp á 13.681 kg. á uppgjörstímabilinu. Í þriðja sæti var Ófeig 882 (f. Skalli 11023) á Stóra-Ármóti í Flóa sem mjólkaði 13.639 kg. síðustu 12 mánuðina. Fjórða nú að loknu uppgjöri október reyndist vera Sanda 1726 (f. Sandur 07014) á Hvanneyri í Andakíl, en nyt hennar á tímabilinu var 13.400 kg. mjólkur. Fimmta kýrin nú var Gróska 757 (f. Platti 644, sonur Birtings 05043) á Þúfu í Landeyjum, sem mjólkaði 13.359 kg. síðustu 12 mánuði.

Alls náðu 154 kýr á mjólkurframleiðslubúunum sem afurðaskýrslum fyrir október hafði verið skilað frá upp úr hádegi hinn 11. nóvember, að mjólka 11.000 kg. eða meira á síðustu 12 mánuðum. Af þeim skiluðu 35 nyt yfir 12.000 kg. Ellefu af þeim hópi mjólkuðu meira en 13.000 kg. á umræddu tímabili og ein þeirra skilaði síðan nyt vel yfir 14.000 kg. eins og fyrr getur.

Meðalfjöldi kúa á hreinu kjötframleiðslubúunum reiknaðist 28,1 en árskýrnar þar voru að jafnaði 25,7 nú við lok október. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum sl. 12 mánuði reyndist 6.708,4 kg.

Meðalfallþungi 10.032 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum búum, undanfarna 12 mánuði var 251,7 kg. og reiknaður meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 746,5 dagar.

 

Sjá nánar:

https://www.rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2022