Norðmenn mæla nú með því að kvígur beri 22ja mánaða

Á vef Landssambands kúabænda birtist í gær frétt þess efnis að nú hefði SEGES í Danmörku sambærilegri niðurstöðu og kom fram í breskri rannsókn að það skili umtalsvert meiri tekjum að láta kvígur bera fyrsta sinni 24 mánaða gamlar í stað 26 mánaða. Við þetta má bæta að ný norsk rannsókn sýnir það sama, þ.e. að kvígurnar eigi að bera fyrsta kálfi yngri en áður hefur verið mælt með eða þá reyndin er. Í doktorsverkefni sínu við NMBU komst Jon Kristian Sommerseth að þeir niðurstöðu að hagkvæmast er að láta NRF-kvígur bera 22ja mánaða gamlar en meðalaldur við 1. burð er 26 mánuðir í Noregi. Jon Kristian segir að með úrvali hafi kvígurnar meiri vaxtargetu en áður, mjólki meira og séu stærri. Þetta þýðir að þær nái kynþroska við lægri aldur auk þess að hafa meiri líkamlegan þroska. Það sé því ástæðulaust annað en að sæða kvígurnar yngri en mælt hefur verið með fram að þessu.

Samkvæmt niðurstöðum Jon Kristian eykst æviframlegð gripanna um 11-36% með því að láta þá bera 22ja mánaða. Stærstu áhrifavaldarnir eru betri fóðurnýting, minni rýmisþörf fyrir gripi í uppvexti og minni vinna. Þá fara gripirnir að skila tekjum mun fyrr en ella. Í rannsókninni fann Jon Kristian ekki að þetta hefði nein neikvæð áhrif á gripina og kröftug fóðrun og gott atlæti væri lykilatriði. Jon Kristian segir að eldri ráðleggingar um að mikil fóðrun á ákveðnum aldri gæti haft neikvæð áhrif uppbyggingu júgurvefs séu bábiljur einar eða eigi alla vega ekki við lengur. Það séu vöxtur, þroski og aldur sem hafi áhrif á uppbyggingu júgurvefjarins, þ.e. hversu gamlar kvígurnar séu þegar þær nái ákveðnum þunga, en ekki mikill vaxtarhraði.

"Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar", var haft eftir ágætum manni fyrir um margt löngu síðan. Segja má að það eigi vel við nú þegar horft er til niðurstaðna þriggja rannsókna þar sem fram kemur að hagkvæmasti burðaraldur kvígna sé 22-24 mánuðir. Á Íslandi er meðalaldur við fyrsta burð 28 mánuðir sem þýðir að meðalgripurinn er 4-6 mánuðum eldri en hann þyrfti að vera við burð. Þessir mánuðir eru tæpast ókeypis fyrir íslenska bændur. Nærri lætur að á hverju ári beri um 10 þús. kvígur fyrsta kálfi. Ef fóður- og húsnæðiskostnaður er 25 þús. kr. á mánuði nemur þessi kostnaður 250 milljónum króna á ári fyrir íslenska kúabændur eða nálægt 450 þús. kr. á bú að meðaltali.

Heimild: Norsk Landbruk, www.norsklandbruk.no

/gj