Ræktun gegn riðu - niðurstöður hermirannsóknar

Mynd: Þórdís Þórarinsdóttir
Mynd: Þórdís Þórarinsdóttir

Komin er út lokaskýrsla verkefnisins „Ræktun gegn riðu - Áhrif mismunandi leiða við innleiðingu verndandi arfgerða metin með slembihermunum“. Verkefnið var unnið af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og var styrkt af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar. Höfundar skýrslunnar eru Þórdís Þórarinsdóttir og Jón Hjalti Eiríksson. Markmið þessa verkefnis var því að meta áhrif mismunandi leiða innleiðingar ARR í íslenska sauðfjárstofninn og voru helstu áhrifaþættir til skoðunar: Hraði innleiðingar, skyldleikarækt, virk stofnstærð og erfðaframför.
Settar voru upp mismunandi sviðsmyndir af riðumótstöðuræktun, með hermilíkani í tölvu þar sem ARR-samsætan var innleidd í stofn sem líkir eftir íslenska sauðfjárstofninum. Niðurstöður þessa verkefnis sýna að þrátt fyrir mjög lága upphafstíðni ARR-samsætunnar er hægt að innleiða verndandi samsætur á riðusvæðum á innan við 10 árum og í stofninum í heild á innan við 20 árum með viðráðanlegum fjölda arfgerðargreininga og án þess að setja stofninn í hættu vegna skyldleikaræktar eða lítillar virkrar stofnstærðar. Hermilíkanið sem þróað var í þessari rannsókn getur myndað góðan grunn fyrir frekari rannsóknir á kynbótaskipulagi fyrir íslenska sauðfjárstofninn.

Sjá skýrsluna hér

/hh