Rekstrar- og fjármálaráðgjöf

Rekstrar- og fjármálaráðgjöf er einn af grunnþáttum í ráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Núverandi ástand í þjóðfélaginu mun hafa áhrif á landbúnaðinn eins og aðra starfsemi og á það ekki síst við bændur í ferðaþjónustu.

Innan RML er mikil reynsla af rekstrarráðgjöf t.d. í tengslum við fjárfestingar og uppbyggingu rekstrar sem og eftirfylgni gegnum hverskonar þrengingar. Mikil þekking er á þeim úrræðum sem eru í boði á hverjum tíma.

Ýmsar aðgerðir hafa nú þegar verið kynntar á vegum stjórnvalda og fjármálafyrirtækja sem stefna að því að milda áhrif COVID-19. Á heimasíðu samtaka fjármálafyrirtækja er frétt um samkomulag um tímabundna greiðslufresti, sjá tengil hér neðar. 

Miklu skiptir að bændur kynni sér þau úrræði sem eru í boði og sæki sér ráðgjöf áður en í óefni er komið. Rekstrarráðunautar RML hafa talsverðar tengingar við fjármálastofnanir og reynslu af aðstoð við almenna og fjárhagslega endurskipulagningu reksturs.

Rétt er að benda bændum og ferðaþjónustu aðilum á vef Vinnumálastofnunar og á fyrri frétt hér á vef RML varðandi þau úrræði sem eru í boði vegna umsókna um atvinnuleysisbætur í skertu starfshlutfalli.

Einnig er rétt að benda á að það tjón eða þau fjárútlát sem verða vegna COVID-19 verður hægt að skrá inn í Bændatorg þegar það eyðublað verður tilbúið en reiknað er með að það verði komið inn i lok þessarar viku. Eyðublaðið er ætlað fyrir alla bændur, þar með talið ferðþjónustubændur. Skráningarnar eru ætlaðar til að meta umfang tjónsins en ekki liggur fyrir hvort eða með hvaða hætti það verður bætt en mjög mikilvægt að haldið sé utan um allt tjón.

Nánari upplýsingar má fá í gegnum síma 516-5000 eða með tölvupósti á rml@rml.is.

Sjá nánar
Samkomulag um tímabundna greiðslufresti á lánum fyrirtækja vegna heimsfaraldurs Covid-19 (af vef Samtaka fjármálafyrirtækja)

Vinnumálastofnun

Úrræði vegna umsókna um atvinnuleysisbætur í skertu starfshlutfalli

klk/msj/okg