Rekstur sauðfjárbúa 2020-2022

Út er komin skýrsla frá RML um rekstur og afkomuþróun sauðfjárbúa fyrir árin 2020-2022. Sú skýrsla er unnin út frá rekstrargögnum samtals 193 sauðfjárbúa af landinu öllu. Innlagt dilkakjöt þátttökubúanna var 27,3% af heildarframleiðslu dilkakjöts árið 2022. Það hlutfall, ásamt samanburði á gögnum frá fyrra ári, bendir til að gögnin gefi góða mynd af stöðu og þróun í greininni.

Öllum þátttakendum er þakkað kærlega fyrir þátttöku í verkefninu. Skýrslur til þátttakenda verða sendar út í lok vikunnar og byrjun næstu viku.

Samantekt skýrslunnar:
• 193 bú skiluðu inn rekstrargögnum fyrir árin 2020 - 2022. Þau standa að baki 27,3% af dilkakjötsframleiðslu í landinu. Meðalbúið hefur 480 skýrslufærðar kindur og framleiðir 21,8 kg dilkakjöts á hverja vetrarfóðraða kind.
• Niðurstöðurnar sýna að afkoma íslenskra sauðfjárbúa batnaði heldur árið 2022, en er að meðaltali óviðunandi og breytileiki milli búa er nokkuð mikill. Munurinn liggur að hluta í greiðslumarkseign þeirra og bústærð, en einnig afurðasemi, tekjusamsetningu og ólíkri kostnaðardreifingu.
• Helstu tækifæri sauðfjárbænda liggja í aukinni afurðasemi og lægri breytilegum kostnaði á hvert framleitt kíló dilkakjöts. Munurinn á breytilegum kostnaði efsta og neðsta þriðjungs eru 405 kr./kg árið 2022 og hefur vaxið á milli ára.
• Merki eru um bætta afkomu árið 2022 en þau tengjast að nokkru leyti hækkun á afurðaverði og einskiptisgreiðslum frá ríki, en einnig auknum tekjum af öðru en sauðfjárrækt.
• Hefði afurðaverð dilkakjöts haldið í við almenna verðlagsþróun frá 2014 til 2022, hefði meðalafurðaverð átt að vera 789 kr./kg en var þess í stað 748 kr./kg.
• Framleiðslukostnaður dilkakjöts, án fjármagnsliða og afskrifta, er að meðaltali 1.535 kr./kg árið 2022. Mikill breytileiki er eftir stærð búa og fer hann stiglækkandi með aukinni stærð búa.
• Framleiðslukostnaður dilkakjöts að meðtöldum fjármagnsliðum og afskriftum er 1.882 kr./kg árið 2022.
• Á árinu 2022 reiknast tap sauðfjárræktar að meðaltali 106 krónur á kg dilkakjöts. Það hefði orðið enn meira ef ekki hefðu komið til einskiptisgreiðslur úr ríkissjóði.
• Miðað við meðalatvinnutekjur á Íslandi 2022, 624 þúsund krónur á mánuði eru mánaðarlaun sauðfjárbú aðeins 45,5% af meðallaunum í landinu.
• Framleiðsla á hvern grip fer minnkandi eftir því sem reksturinn verður fjölbreyttari og tekjur koma frá fleiri liðum.
• Nauðsynlegt er að tryggja rekstrarumhverfi sauðfjárbúa þannig að beinar tekjur af framleiðslu sauðfjárafurða standi undir eðlilegri launakröfu, nauðsynlegum fjárfestingum, tæknivæðingu og nýliðun.
• Ein leið að bættum árangri liggur í að auka vitund bænda gagnvart meðferð bókhaldsgagna og færslu bókhalds í auknum mæli sem bústjórnartæki líkt og í skýrsluhaldi sauðfjárræktar.

Sjá nánar:
Rekstur sauðfjárbúa 2020-2022