Skýrsla um afkomu nautakjötsframleiðenda 2017-2019

Komin er út skýrsla um rekstur og afkomu í nautaeldi fyrir árin 2017-2019. Sumarið 2020 vaknaði sú hugmynd að rýna í afkomu nautakjötsframleiðenda enda hafði þá afurðaverð til þeirra lækkað og biðlistar í slátrun voru farnir að myndast. Þá var þegar í gangi verkefni sem tengdist rekstri á kúabúum auk verkefnis tengt afkomuvöktun á sauðfjárbúum og því eðlilegt og nauðsynlegt að skoða einnig stöðu nautakjötsframleiðenda.
Verkefnið var kynnt og unnið veturinn 2020-2021 á grunni gagna frá 20 búum. 11 þessara búa voru á Norðurlandi og 9 á Suður- og Vesturlandi og þau voru mjög breytileg að samsetningu. Sum í mjólkurframleiðslu, sauðfjárrækt, ferðaþjónustu eða vélaverktöku samhliða nautaeldi. 11 þessara búa selja afurðir sínar að einhverju eða miklu leyti beint til neytenda, önnur leggja allt sitt inn í afurðastöð.
Greiningarvinnan var unnin út frá skýrsluhaldsupplýsingum og bókhaldi þátttökubúa. Lagt var upp með að þátttökubúin gætu borið saman rekstrarafkomu sína við hin búin í verkefninu með eins skýrum hætti og gagnasafnið bauð upp á.
Niðurstaða verkefnisins er í takt við það sem nautgripabændur hafa rætt sín á milli undanfarin misseri. Afurðatekjur af nautaeldi ná ekki einar og sér að standa undir framleiðslukostnaði. Afurðaverðslækkanir og aðfangahækkanir hafa komið mjög illa við búgreinina á sama tíma og bændur eru að ná auknum árangri í framleiðslu gæðagripa.
Jafnframt sýnir þetta verkefni að það er mjög mikilvægt að halda úti raunvöktun á afkomu nautgripabænda og stefnan er að vinna að því áfram og fá fleiri bændur að borðinu til að renna styrkari stoðum undir það.

Verkefnið er m.a. styrkt af þróunarsjóði búgreinarinnar og niðurstöður þess má finna á þessari slóð: Skýrslan

 

/hh