Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Út er komin skýrsla frá RML um rekstur og afkomuþróun sauðfjárbúa fyrir árin 2021-2023. Sú skýrsla er unnin út frá rekstrargögnum samtals 198 sauðfjárbúa af landinu öllu. Innlagt dilkakjöt þátttökubúanna var 28,7% af heildarframleiðslu dilkakjöts árið 2023. Það hlutfall, ásamt samanburði á gögnum frá fyrra ári, bendir til að gögnin gefi góða mynd af stöðu og þróun í greininni. Árið 2023 reiknast rekstrarniðurstaða þátttökubúa nokkurn veginn á núlli sem er í fyrsta skipti á verkefnistímanum sem spannar 6 ár.
Meðalbúið í verkefninu er með 468 skýrslufærðar kindur og framleiðir að jafnaði 22,3 kg dilkakjöts á hverja þeirra.
Niðurstöðurnar sýna að afkoma íslenskra sauðfjárbúa batnaði heldur árið 2023 en breytileiki milli búa fer vaxandi. Munurinn liggur að hluta í greiðslumarkseign þeirra og bústærð, en einnig afurðasemi, tekjusamsetningu og ólíkri kostnaðardreifingu. Hækkun afurðaverðs og einskiptisgreiðslur árið 2023 eiga verulegan þátt í afkomubata búanna. Afurðaverð nær nú í fyrsta skipti frá árinu 2023 raungildi afurðaverðs árið 2014 og hækkaði um 63% milli áranna 2021-2023 miðað við verðlag hvers árs.
Framleiðslukostnaður dilkakjöts árið 2023 reiknast 1.666 kr./kg að jafnaði fyrir fjármagnsliði og afskriftir. Eins og áður er hann mjög breytilegur en fer stiglækkandi með aukinni bústærð. Framleiðslukostnaður dilkakjöts að meðtöldum fjármagnsliðum og afskriftum er 2.112 kr./kg.
Helstu tækifæri sauðfjárbænda liggja í aukinni afurðasemi og lægri breytilegum kostnaði á hvert framleitt kíló dilkakjöts. Munurinn á milli búa í efsta þriðjungi framlegðarstigs og neðsta þriðjungs er um 429 kr./kg árið 2023 eða sem svarar 4,5 milljónum kr. sé hann reiknaður á meðalinnlegg þátttökubúsins.
Meðalatvinnutekjur á Íslandi árið 2023 voru 681 þúsund krónur á mánuði og reiknast mánaðarlaun sauðfjárbúa aðeins um 45,3% af meðallaunum í landinu.
Öllum þátttakendum hafa þegar verið sendar skýrslur með niðurstöðum þeirra og við þökkum þeim kærlega fyrir þátttökuna í verkefninu. Mikilvægi þessa verkefnis fer stöðugt vaxandi og verður því haldið áfram en gagnasöfnun fyrir árið 2024 er þegar hafin.