Skýrsluhald í jarðrækt er forsenda jarðræktarstyrkja og landgreiðslna

Umsóknarfrestur til að sækja um jarðræktarstyrki og landgreiðslur fyrir árið 2019 rennur út 1. október næstkomandi.

Jarðræktarstyrkur er greiddur út á nýræktir, endurræktun á túnum, kornrækt, grænfóðurrækt til sláttar og beitar og útiræktun á grænmeti.

Landgreiðslur eru greiddar á allt annað land sem er uppskorið til fóðuröflunar en ekki er greitt út á land sem er eingöngu nýtt til beitar.

Ekki er hægt að sækja um bæði landgreiðslur og jarðræktarstyrki fyrir sömu spildurnar.

Þegar spilda, t.d. tún er tekið til ræktunar að hluta þarf að láta teikna upp þann hluta og skrá á hann viðkomandi ræktun. Þá er einnig mikilvægt að ganga úr skugga um að túnkortið sé í samræmi við þá ræktun sem er fyrir hendi. Ef lagfæra þarf túnspildulistann er betra að hafa samband við RML sem fyrst svo lagfæra megi hann í tæka tíð.

Áður en hægt er að sækja um styrkina þarf að skrá ræktun, uppskeru og grænfóðurbeit í Jörð.is og síðan að skila þar jarðræktarskýrslu. Ráðunautar RML aðstoða bændur eftir þörfum við þá skráningu og taka jafnframt að sér skráningar fyrir þá sem þess óska. Innheimt er fyrir þessa þjónustu samkvæmt tímaskráningu og gildandi gjaldskrá.

Þeir sem óska eftir þjónustu RML við skráningu á jarðræktarskýrslunum en hafa ekki pantað hana ennþá ættu að gera það sem fyrst svo hægt verði að ganga frá öllum skráningum og umsóknum innan tilsetts tíma. Í tengli hér neðar má finna eyðublöð sem prenta má út til að færa inn á upplýsingar um ræktun, uppskeru og beit. Þessi blöð má einnig nálgast á starfsstöðvum RML.

Sótt er um styrkina hjá Matvælastofnun á Bændatorginu undir liðnum – Búnaðarstofa MAST. Umsóknirnar taka mið af jarðræktarskýrslunni sem þá á að hafa verið skilað í Jörð.is.

Ráðunautar RML eru bændum til aðstoðar við þessa vinnu eftir þörfum. Síminn hjá RML er 516-5000.

Sjá nánar: 

Skýrsluhald í jarðrækt

 bpb/okg