Tíu ný reynd naut í notkun

Pipar 12007
Pipar 12007

Fagráð í nautgriparækt fundaði í gær og ákvað á þeim fundi að setja 10 ný reynd naut í notkun að lokinni kynbótamatskeyrslu. Kynbótamatið var nú í fyrsta skipti keyrt með mælidagalíkani sem Jón Hjalti Eiríksson vann í meistaraverkefni sínu við Landbúnaðarháskólann. Matið notar einstakar mælingar í stað mjaltaskeiðsafurða áður og því fæst afurðamat á dætur nautanna fyrr en áður. Á þessum grunni var hægt að ljúka afkvæmadómi fyrir allan 2012 árganginn og teygja sig aðeins í 2013 árganginn sem að öllu jöfnu hefði ekki verið gert fyrr en að ári.

Þau naut sem koma ný til dreifingar nú eru; Bakkus 12001 frá Auðsholti í Hrunamannahreppi undan Ófeigi 02016, móðurfaðir Frami 05034, Pipar 12007 frá Espihóli í Eyjafirði undan Gylli 03007, móðurfaðir Flói 02029, Kraftur 12024 frá Ingjladsstöðum í Þingeyjarsveit undan Ára 04043, móðurfaðir Kambur 06022, Loki 12071 frá Bakka á Kjalarnesi undan Birtingi 05043, móðurfaðir Þröstur 00037, Sjarmi 12090 frá Hrepphólum í Hrunamannahreppi undan Kola 06003, móðurfaðir Laski 00010, Dúett 12097 frá Egilsstaðakoti í Flóa undan Birtingi 05043, móðurfaðir Dúllari 07024, Polki 12099 frá Brúnastöðum í Flóa undan Kola 06003, móðurfaðir Spotti 01028, Jörfi 13011 frá Jörfa í Borgarbyggð undan Birtingi 05043, móðurfaðir Skurður 02012, Víkingur 13017 frá Syðri-Knarrartungu í Breiðuvík undan Birtingi 05043, móðurfaðir Ingjaldur 04011 og Hálfmáni 13022 frá Brjánsstöðum í Grímsnesi undan Vindli 05028, móðurfaðir Laski 00010.

Áfram verða í notkun Fossdal 10040, Kústur 10061, Dropi 10077, Stólpi 11011, Skalli 11023 og Skellur 11054.

Nautsfeður til notkunar næstu mánuði verða þeir Bakkus 12001 og Sjarmi 12090.

Uppfærðar upplýsingar um þessi naut eru komnar á nautaskra.net.

Þau naut sem tekin voru úr notkun lækkuðu ýmist í mati eða þá að sæði úr þeim er uppurið hjá nautastöðinni.

Eflaust vekur athygli að synir Birtings 05043 eru settir í áframhaldandi notkun en sem kunnugt er kom fram kýr með fláttu undan honum. Að vandlega athuguðu máli er ekki óyggjandi að um erfðagallann fláttu hafi verið að ræða. Engar vísbendingar um slíkt hafa komið fram hjá sonadætrum Birtings og þá hefur einig verið kannað hvort fláttutilvik hafi komið fram þar sem ættir Birtings og annarra fláttunauta hafa legið saman. Ekkert sem bendir til þess að Birtingur beri þennan erfðagalla hefur komið fram utan þetta einangraða tilvik og því fannst fagráði ekki stætt á öðru en setja umrædd naut í notkun.

Þessi naut koma til dreifingar við næstu áfyllingar hjá frjótæknum um land allt.

/gj