Karfan er tóm.
- Ráðgjöf
- Kynbótastarf
- Forrit og skýrsluhald
- Fjárvís.is
- Huppa.is
- Worldfengur.com
- Jörð.is
- dkBúbót
- Heiðrún.is
- Aðstoð
- Innheimta, verðskrá og reglur
- Um okkur
Karfan er tóm.
Vel var mætt á fagfund sauðfjárræktarinnar og á árshátíð sauðfjárbænda sem fram fór laugardaginn 12. apríl á Fosshóteli Húsavík. Báðir viðburðirnir heppnuðust afar vel og eiga heimamenn sérstakt hrós skilið fyrir góðar móttökur og þeirra þátt í undirbúningi.
Að vanda voru flutt fjölbreytt erindi á fagfundinum sem fagráð í sauðfjárrækt stóð fyrir og neðst í þessari frétt er hlekkur á upptöku af fundinum.
Kátur og Búi hlutu verðlaun sæðingastöðvanna
Sæðingastöðvarnar veita árlega verðlaun fyrir þá stöðvahrúta sem best hafa reynst. Besti lambafaðirinn samkvæmt niðurstöðum frá haustinu 2024 var að þessu sinni Kátur 20-905 frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum, en synir hans voru að jafnaði hæst stigaðir af sonum stöðvahrútanna sl. haust. Bændur á Efstu-Grund eru Sigurjón Sigurðsson og Sigrún Bjarnadóttir.
Val á besta reynda sæðingastöðvahrútnum beinist eingöngu að þeim hrútum sem eiga orðið dætur, tilkomnar með sæðingum, sem hafa a.m.k. tveggja ára reynslu samkvæmt niðurstöðum úr afurðauppgjöri skýrsluhaldsins. Að þessu sinni var það hrúturinn Búi 15-822 frá Lækjavöllum í Bárðardal. Ræktandi hans er Kristján Valur Gunnarsson. Búi reyndist í ríflegu meðallagi sem lambafaðir en mikill afburða ærfaðir og eru dætur hans bæði frjósamar og frábærlega mjólkurlagnar.
Kátur 20-905
Búi 15-822
Ytra-Vallholt verðlaunað fyrir framúrskarandi árangur í ræktun gegn riðu
Í fyrsta sinn var nú veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í ræktun gegn riðu. Að þessu sinni var horft til allra búa (nema þeirra sem skilgreind eru sem riðubú) sem sem hafa 100 eða fleiri ær á skýrslum. Valið byggist á BLUP kynbótamati fyrir riðumótstöðu. Á næsta ári er síðan gert ráð fyrir að hafa þessi verðlaun flokkaskipt m.t.t. áhættuflokkunar búa samkvæmt væntanlegri reglugerð um útrýmingu riðuveiki.
Það bú sem nú stendur hæst yfir landið samkvæmt kynbótmatseinkuninni er Ytra-Vallholt, í Vallhólmi í Skagafirði. Í Ytra-Vallholti hefur hrútanotkun í meira en 15 ár byggst á innleiðingu AHQ og eftir að ARR uppgötvaðist hefur sú genasamsæta einnig verið innleidd að krafti. Bændur í Ytra-Vallholti eru Björn Grétar Friðriksson og Harpa Hrund Hafsteinsdóttir. Þau búa með um 650 kindur og er nánast allur stofninn með verndandi eða mögulega verndandi gen.
Efri-Fitjar hlutu Halldórsskjöldinn
Sauðfjárræktarbú ársins reyndist vera Efri-Fitjar í Fitjárdal í Vestur-Húnavatnssýslu. Hér koma til álita bú með 100 skýrslufærðar ær eða fleiri, búin þurfa að standast ýmsar kröfur varðandi afurðir og síðan er þeim raðað upp eftir heildareinkunn kynbótamatsins.
Á Efri-Fitjum standa fyrir búi þau Gunnar Þorgeirsson, Gréta Brimrún Karlsdóttir, Jóhannes Geir Gunnarsson og Stella Dröfn Bjarnadóttir. Þrátt fyrir að búið sé meðal stærstu fjárbúa landsins þá hefur það á síðustu árum staðið í fremstu röð fyrir magn og gæði afurða og hefur skilað nokkrum öflugum hrútum inn á sæðingastöðvarnar. Hér er veittur hinn glæsilegi farandgripur, Halldórsskjöldurinn, sem skorinn var út af Siggu á Grund og veittur til minningar um dr. Halldór Pálsson.
Halldórsskjöldurinn, glæsilegur farandgripur
Sjá nánar upptöku af fagfundi: Upptaka af fagfundi 12. apríl 2025
/hh