Bústólpi og RML semja um ráðgjöf til kúabænda

RML og Bústólpi hafa gert samkomulag um gerð fóðuráætlana og ráðgjöf til bænda í haust. Með samkomulaginu hyggst Bústólpi bjóða sínum tryggu fóðurkaupendum fría grunnþjónustu við fóðuráætlanagerð sem felst í töku heysýna, efnagreiningu og gerð grunnfóðuráætlunar. Fóðurráðgjafar RML munu annast alla framkvæmdina frá töku sýna til fóðuráætlunar og verða þannig í beinum samskiptum við bændurna, eftir að Bústólpi hefur gefið upp hverjir eiga að njóta þjónustunnar sem verður á kostnað Bústólpa.

Það er mjög ánægjulegt að fóðursali velji það að fá óháð ráðgjafarfyrirtæki til þess að veita viðskiptavinum sínum fóðurráðgjöf. RML er í eigu bænda og með þessu samkomulagi er fjármunum því skynsamlega varið hvort sem er fyrir bændur eða Bústólpa, segir Berglind Ósk Óðinsdóttir starfsmannastjóri og ráðgjafi hjá RML.

RML hefur byggt upp öflugt starf á sviði fóðurráðgjafar og hafa ráðunautar fyrirtækisins víðtæka þekkingu og reynslu á því sviði og þá sérstaklega sviði fóðurráðgjafar til kúabænda. Við fóðuráætlanagerð er stuðst við samnorræna fóðurmatskerfið NorFor ásamt sérhæfðum forritum. Það veitir RML forskot í sérhæfðri og fyrsta flokks ráðgjöf til íslenskra bænda.

Til að hámarka afurðir og lágmarka um leið kostnað við fóðrun er mikilvægt að bændur þekki sitt gróffóður vel, en fái um leið faglega ráðgjöf um fóðrunina og aðstoð við val á kjarnfóðri sem hentar með, segir Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa. Ástæða þess að við sækjumst eftir þessu samstarfi við RML er að þar er að finna víðtæka þekkingu á fóðrun íslenskra gripa og með samstarfinu stuðlum við einnig að þvi að efla þá þjónustu sem bændurnir sjálfir eiga og reka. Þetta er í grunnimn þjónusta sem er afar mikilvægt að bændur sameinist um að nýta og tryggi þannig um leið sem best aðgengi að hlutlausri og faglegri ráðgjöf. Við munum að sjálfsögðu leiðbeina okkar bændum áfram eins og áður ef leitað er til okkar beint, segir Hólmgeir, en með þessum vinnubrögðum og samkomulagi við RML teljum við að við séum að auka og bæta þjónustuna við okkar bændur.

Nánari upplýsingar veita:

Berglind Ósk Óðinsdóttir hjá RML í síma 693 0148 og Hólmgeir Karlsson hjá Bústólpa í síma 893 9750.

boo/okg