Samantekt á heysýnum 2020

Í samstarfi við Efnagreiningu ehf og fóðurfyrirtæki sem hafa tekið heysýni hjá bændum síðustu ár hefur tekist að byggja upp vel flokkaðann og góðan gagnagrunn um heysýni tekin á Íslandi og eiga viðkomandi skilið hrós fyrir aðkomu sína að því. Í þeirri útlistun sem hér er birt voru heysýnin flokkuð eftir landshlutum og svo eftir því hvort um var að ræða fyrsta eða annan slátt,, grænfóður eða rýgresi. Í gagnagrunninum er mun ítarlegri flokkun eftir slátturtíma, hvort sýnið sé þurrlegt eða í blautari kanntinum og hvort ræktunin sé gömul eða nýleg. Grænfóður er flokkað í mismunandi samsetningar á heilsæði, hafrar og repju. Þetta er því mjög fjölbreyttur flokkur og því erfitt að túlka niðurstöður úr þeim flokki og því er rýgresið flokkað sér en ekki með öðru gærnfóðri.

Þetta er í fyrsta skipti sem við tökum niðurstöður heysýna svona ítarlega saman og gerir það samanburð milli ára erfiðan en á næsta ári verður það auðveldara með samskonar sundurliðun. Tekin var sú ákvörðun að birta ekki niðurstöður þar sem einungis voru 5 eða færri sýni á bak við meðaltalið og bendum við lesendum jafnframt á að fara varlega í túlkun á niðurstöðum þar sem fá sýni standa að baki. Í flokkun landshluta fylgja niðurstöður frá Vestfjörðum Vesturlandi.

Til að hafa einhvern samanburð á milli ára þá berum við saman niðurstöður 1. sláttar 2020 og samantektina fyrir 2019. Þar má sjá að er þurrefni er heldur lægra í heyjunum núna , 513 g/kg þe en var 560 árið 2019. Eins er meltanleikinn lægri 77,8% á móti 78,3% árið 2019. Hráprótein var 153 g/kg þe sem er hærra en 2019 en þá var það 149 g/kg þe og eins var meira tréni 518 g NDF/kg þe á móti 487 g NDF/kg þe 2019. Sykurinn var nokkuð lægri 2020 eða 61,4 g/kg þe en var 76 g7kg þe 2019. AAT og PBV er svipað bæði árin, AAT er 95 g/kg þe en var 93 árið 2019 og PBV 5 g/kg þe en 4 árið 2019. Orkan er aðeins hærri í heyjunum 2020, 6,48 MJ/kg þe á móti 6,45 árið 2019.

Ef horft er á landshlutana þá er þurrefnið lægst á Suðurlandi en hæst á Norðurlandi fyrir 1. slátt. Suðurland sker sig aðeins úr fyrir próteininnihald en þar er það nokkuð lægra en í öðrum landshlutum fyrir 1. slátt. Sykur var hæstur í heyjum á Austurlandi en lægstur á Vesturlandi. AAT er svipað í öllum landshlutum en PBV hæst á Vesturlandi og lægst á Suðurlandi. Orkan (NEL) er mest í heyjum á Norðurlandi en minnst á Suðurlandi.

2. sláttur er heldur þurrari, með hærri meltanleika og próteinríkari en 1. sláttur en aðeins lægri í orku.

ÞE: Þurrefni (g/kg fóðurs), MLE: Meltanleiki lífræns efnis (%), HP: Hráprótein (g/kg ÞE), sHP: Leysanlegt hráprótein (g/kg HP), NDF: Tréni (g/kg ÞE), iNDF: Ómeltanlegt NDF (g/kg NDF), Sykur: (g/kg ÞE), AAT: Amínósýrur teknar upp í smáþörmum (g/kg ÞE), PBV: Próteinjafnvægi í vömb (g/kg ÞE), NEL: Nettó orka til mjólkurframleiðslu (MJ/kgÞE).

Ef 1. sláttur 2020 er borinn saman við samantektina 2019 þá hefur kalsíum (Ca) aðeins lækkað (var 4,1 g/kg þe 2019) en fosfór (P) er nokkuð hærri (var 2,5 g/kg þe 2019), magnesium er það sama (var 2,4 g/kg þe 2019) og kalí (K) hefur hækkað (var 16,5 g/kg þe 2019), natríum (Na) er svipað (var 1,6 g/kg þe 2019) en lítilsháttar hækkun á brennisteini (S) (var 2,2 g/kg þe 2019). Horft til viðmiða á steinefnum fyrir mjólkurkýr þá er það helst kalsíum sem vantar eitthvað uppá og skera tölur af Suðurlandi sig nokkuð úr 2020 með mjög lágar kalsíumtölu en árið á undan var Suðurland á pari við aðra landshluta. Má nefna að kalsíum í 2. slætti á Suðurlandi er einnig nokkuð lægra en í hinum landshlutunum. Katjóna jafnvægi (CAB) er undir mörkum fyrir mjólkandi kýr en til að hækka það þarf að hækka kalí og natríum en hafa ber í huga að hátt katjónajafnvægi fyrir geldkúafóður eykur líkur á doða við burð og stálma í júgri.

Staða á snefilefnum í 1. slætti virðist vera nokkuð góð einungis kopar (Cu) og molybden (Mo) sem er undir viðmiðunarmörkum fyrir mjólkurkýr. Selen nær vel upp í viðmiðunarmörkin og hefur hækkað á milli ára (var 164 µg/kg þe 2019).

Hér er búið að birta töluvert magn af tölulegum upplýsingum og ef það vakna einhverjar spurningar eða vangaveltur varðandi fóðrun eða jarðrækt ekki hika við að hafa samband við ráðunauta RML í síma 516 5000 eða í gegnum netfangið rml@rml.is.

Sjá nánar: 
Samantekt fyrir 2019

/okg