Niðurstöður heyefnagreininga haustið 2019

Niðurstöður heysýna hafa verið að berast bændum síðustu vikurnar og nú er búið að efnagreina það mikið af sýnum að ástæða er til að skoða hvað niðurstöðurnar segja. Þó að oft megi gera sér nokkuð í hugarlund hvernig heyin séu eru jafnan einhver gildi nokkuð á skjön við væntingar manna enda vorkoma, sprettutíð og tíðarfar til heyskapar misjöfn milli ára. Lystugleiki heyjanna er svo annar mikilvægur þáttur í gæðamati þeirra.

Hér eru tekin saman meðaltöl fyrir landið og landsfjórðungana úr þeim niðurstöðum sem borist hafa lok október og skilað sér í FAS gagnagrunn NorFor, norræna fóðurmatskerfisins fyrir jórtutdýr. Til samanburðar eru niðurstöður frá sama tíma 2018.

Heldur meira er komið af niðurstöðum en á sama tíma í fyrra en dreifing eftir landshlutum er áþekk. Miðað við þessar niðurstöður eru heyin þurrari í ár og gætir þess allstaðar nema á Austurlandi þar sem heyin voru þurrust 2018. Meltanleiki heyjanna er góður en samt aðeins lægri en í fyrra og orkuinnihald minna í samræmi við það. Ekki er mikill munur milli landshluta á því hve mikil orka mælist og á Suðurlandi er orkan í heyjunum nær sú sama og 2018 en hún lækkar milli ára í öðrum landshlutum.

Prótein er talsvert minna í heyjunum í ár en í fyrra. Mest er breytingin milli ára á norðan- og vestanverðu landinu þar sem hún nemur 15 g/kg þe en á Suðurlandi er lækkunin minnst milli ára. Þurrkur og kuldi í byrjun sumars er líklegasta skýringin á þessu lága próteini og sumstaðar er prótein í heyjum ansi lágt. Í sýnunum af Vesturlandi og Vestfjörðum er próteinið minnst, 142 g/kg þe en var 157 g/kg þe árið 2018.

Það er hóflega mikill sykur í heyjunum í ár þó hann sé aðeins meiri en í fyrra. Hann hækkar milli ára á vestan- og sunnanverðu landinu en lækkar á Austurlandi.

Nokkur munur er á milli landshluta í magni steinefna, kannski þó mestur í innihaldi heyjanna á kalíi. Magn þess er að meðaltali minna en undanfarin ár aðeins ofan þeirra neðri marka sem sett hafa verið hér á landi sem viðmið um hæfilegt magn þess í heyjum. Það lækkar milli ára á Norðurlandi um 2 g/kg þe og það lækkar lítillega á Vesturlandi en hækkar á Suður- og Austurlandi. Stór hluti af ábornu kalíi kemur úr búfjáráburði og því hafa aðstæður við dreifingu á honum mikil áhrif á nýtingu þess. Eins hefur tíðarfar á sprettutíma grasanna áhrif á upptöku þess eins og annara næringarefna og endurspeglar kalítalan í heysýnum kannski vel muninn á veðráttunni tvö síðustu sumur. Á hinn bóginn má sumsstaðar greina stöðuga lækkun á kalíinnihaldi heyja og er rétt að benda bændum á að hægt er að fá innihald búfjáráburðar, s.s. mykju, efnagreint og ganga þannig úr skugga um hvort hann innihaldi í raun það magn áburðarefna sem reiknað er með. Leiðbeiningar um sýnatöku úr búfjáráburði er að finna í gegnum tengil hér neðst á síðunni.

Magnesíum mælist innan þeirra marka sem sett hafa verið um æskilegt magn í heyjum en af kalsíum, fosfór og natríum er magnið of lítið til að ná þessum mörkum. Á Suðurlandi innihalda heyin 2019 meira af kalsíum og natríum en árið 2018. Fosfór er hinsvegar minni í heyjunum 2019 í öllum landshlutum nema á Austurlandi þar sem hann hækkar aðeins. Heldur minna mælist af brennisteini í heyjunum 2019 en 2018 en af seleni innihalda hey að jafnaði ágætt magn bæði árin. Hæst er meðaltalið fyrir selen í heyjunum af Austurlandi. Seleninnihald heyja hefur batnað mikið með tilkomu selenbætts áburðar undanfarin ár en úr öllum landshlutum er þó að finna stöku mælingar með óþarflega há gildi fyrir selen. Rétt er að veita þessu athygli því mjög mikið selen í fóðri getur valdið eituráhrifum. Svo háar mælingar hafa þó ekki sést.

Sjá nánar:
Leiðbeiningar um sýnatöku úr búfjáráburði 

el/okg