SPROTINN jarðræktarráðgjöf

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur síðustu ár boðið upp á þjónustu- og ráðgjafarpakka í jarðrækt undir heitinu Sprotinn. Viðbrögð bænda hafa verið góð og í fyrra voru 43 býli þátttakendur. Skráning fyrir líðandi ár er nú í fullum gangi. Sprotinn á að geta hentað jafnt þeim bændum sem stunda ræktun og framleiðslu á skepnufóðri og þeim sem stunda útiræktun á grænmeti. Í ár leggjum við ekki síður áherslu á að fá þá síðarnefndu í hóp þátttakenda.

Helsta markmið Sprotans er að bæta nýtingu áburðarefna við framleiðslu þess jarðargróðurs sem fram fer á búinu. Í þeirri vegferð er byrjað á því að aðstoða og leiðbeina bændum við skráningu jarðræktarupplýsinga í jörð.is og gæta þess að túnkortum sé rétt viðhaldið. Þessar skráningar eru mikilvægar til þess að halda utan um sögu ræktarlands en einnig vegna þess að þær eru notaðar til þess að sækja um ræktunarstyrki og landgreiðslur.

Á bújörðum þar sem jarðvegssýni hafa ekki verið tekin nýlega er lögð áhersla á að slíkt sé gert til þess að fá sýn yfir ástand ræktarlands. Áburðaráætlun er unnin í kjölfarið þar sem notaðar eru upplýsingar sem safnað er í verkefninu. Þegar skráning á áburðarnotkun og uppskeru er orðin markviss gefst kostur á að gera greiningu þar sem þessir þættir eru bornir saman til þess að meta gæði túna með tilliti til gróffóðuröflunar eða garðlanda til framleiðslu útiræktaðs grænmetis.

Lögð er áhersla á að hafa Sprotann í stöðugri þróun sem tekur mið af reynslu ráðunauta og ábendingum frá þeim bændum sem nýta sér pakkann.

el/okg