Vegna umræðna um „Plast í íslenskum landbúnaði – leiðir og kostnaður við að draga úr notkun heyrúlluplasts“

Nýlega útgefin skýrsla RML um plast í íslenskum landbúnaði hefur vakið miklar og gagnlegar umræður.  Umræður um loftslags- og umhverfismál eru þörf, og þökkum við fyrir alla þá athygli sem þessi vinna hefur fengið.  Það hafa vaknað nokkrar spurningar hjá áhugasömum um þessi mál og val á forsendum í reiknilíkani sem kynnt er í skýrslunni.

Grundvöllur fyrir kostnaðarútreikningum á mismunandi fóðuröflunaraðferðum var fóðurtap, en þá er átt við þurrefnistap frá slætti að gjöfum.  Í skýrslunni voru settar fram niðurstöður tveggja viðmiðunarbúa og fóðurþarfir þeirra.

Eftir því sem meira tap varð við fóðuröflun og geymslu því fleiri hektara þurfti til að afla heyfengins, sem skýrir breytileikann í ræktunarkostnaði mismunandi heyöflunaraðferða.

Í heimildavali um fóðurtap var ákveðið að styðjast við kafla úr ritstýrðri bók, „Forage – the science of grassland agriculture“.  Þetta var að mati skýrsluhöfunda góð heimild sem tekur á hlutlausan hátt saman á einum stað þær fóðuröflunaðferðir sem kynntar eru í skýrslunni.

Við val á fjölda turna þá ákváðu skýrsluhöfundar að til þess að hægt sé að færa heyöflun að öllu eða miklu leyti yfir í turna þá þyrfti þrjá turna. Ástæða þess er að til væri fóður allt sumarið í einum turni þar til hægt er að byrja gjafir úr næsta ca. tveimur mánuðum eftir að turninn var fylltur.

Starfsmenn RML eru að vinna önnur verkefni á þessu sviði. Það fyrra ber vinnuheitið „Flatgryfjur – reynsla íslenskra bænda“ þar sem verið er að vinna með fimmtán bændum og voru frumniðurstöður þess notaðar í þessa skýrslu.   Verkefnið „Rekstur kúabúa 2017-2019“ mun einnig styðja við frekari útreikninga fyrir bændur kjósi þeir að láta reikna út og bera saman mismunandi fóðuröflunarkostnað fyrir sitt bú.

Í framhaldi verkefnisins verða birtar greinar um einstaka liði þess í næstu tölublöðum Bændablaðsins.

Sjá einnig:

Frétt um plastnotkun í íslenskum landbúnaði