Norrænt samstarf í útrás

Ráðunautaþjónustur og ábyrgðaraðilar skýrsluhalds í nautgriparækt í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð hafa um árabil unnið í sameiningu að því að þróa tæknilausnir til að auðvelda gagnaflæði milli skýrsluhaldskerfa og mjaltabúnaðar.  RML sem ábyrgðaraðili skýrsluhalds og ræktunarstarfs hérlendis er þátttakandi í þessu samstarfi fyrir Íslands hönd.

Kerfið sem kallast NCDX (Nordic Cattle Data Exchange) er þróað af Mtech í Finnlandi og er komið í notkun, m.a í Finnlandi og Noregi, og unnið hefur verið að því að búa til tengingar við mjaltaþjóna á Íslandi.

Gagnaflutningur milli tölvustýrðs mjaltabúnaðar og skýrsluhaldskerfa er verkefni sem skýrsluhaldsaðilar víða um heim vinna að því að leysa og fyrir nokkru sameinuðust aðilar í Ástralíu, Austurríki, Belgíu, Kanada, Þýskalandi, Hollandi og Bandaríkjunum um að skoða í sameiningu mögulegar tæknilausnir.  Niðurstaðan varð að norræna kerfið NCDX uppfyllti þær kröfur sem settar voru.  Gengið var til samninga um kaup á  hugbúnaðinum og um leið hefur verið stofnað félag, iDDEN (The International Dairy Data Exchange), um áframhaldandi þróun á kerfinu þar sem Norðurlandaþjóðirnar ganga sameinaðar inn í samstarfið undir merkjum NCDX.aps með 1/7 eignarhlut.

Með stofnun iDDEN hafa 13 lönd með samtals 20 miljón mjólkurkýr sameinast um þróun á tæknilausn sem gerir gagnaflæði milli tölvustýrðra mjaltakerfa og annara bústjórnarlausna einfalt og skilvirkt.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir RML sem ábyrgðaraðila og framkvæmdaaðila skýrsluhalds í nautgriparækt á Íslandi að geta tekið þátt í þessu samstarfi sem hluti af NCDX.aps og þannig tryggt aðgang að nýjustu og bestu tækni.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu iDDEN https://www.idden.org/news-events

/gj