Góður árangur í Kolsholti í Flóa á síðasta ári

Heimasmíðaður gróffóðursópur
Heimasmíðaður gróffóðursópur

Bændurnir í Kolsholti í Flóa hafa náð miklum árangri í afurðum eftir hverja kú á seinasta ári. Í Kolsholti er stundaður kúabúskapur en auk þess er þar rekið verkstæði. Fjósið er lausagöngufjós fyrir 45 kýr byggt árið 1985. Haustið 2014 var mjaltabásinn endurnýjaður, keyptur notaður mjaltabás og honum komið fyrir með tilheyrandi breytingum og aðlögun. Þannig varð hægt að mjólka 10 kýr í einu í stað þess að mjólka í 6 kúta eins og var gert áður. Á sama tíma voru teknir í gagnið kjarnfóðurbásar.

Kýr sem mjólkaðar eru í kálfa eru mjólkaðar í einn af gömlu kútunum, en hann hangir á braut í miðri gryfjunni, með þessu losna þeir við mjaltavélafötur og slöngur af gólfinu. Úr kútnum er svo hægt að dæla mjólkinni beint yfir til smákálfanna. Slík hönnun sparar allan fötuburð.

 
Mynd 2: Heilfóðurblandarinn inni í hlöðunni en fóðrið er keyrt inn á fóðurgang með liðléttingi

Síðsumars fengu bændurnir sér svo heilfóðurblandara til að nýta betur heimafengið fóður. Nú er verið að blanda um 2600 kg af mismunandi gróffóðri (ein rúlla byggheilsæði, ein rúlla fyrri sláttur og einn stórbaggi há) auk þess sem sett eru 300 kg af sýrðu byggi, 42 kg af rækjumjöli og 300 kg af vatni til að hráefnin festist sem mest á gróffóðrinu. Þannig geta kýrnar síður valið byggið úr. Þessi blanda dugar 42 kúm í um 50 klukkustundir, sem þýðir að hver og ein étur um 34 kg af heilfóðri á sólarhring. Að auki fá þær nythæstu kjarnfóður í kjarnfóðurbásum. Síðastliðna 12 mánuði hefur meðalnyt á búinu hækkað um 1.017 kg/árskú sem verður að teljast glæsilegur árangur. Þar að auki var allt tímabilið framleidd úrvalsmjólk.

Heilfóðrinu er keyrt inn á fóðurgang með liðléttingi. Til að létta sér verkin smíðuðu bændur sér svo sópara framan á liðléttinginn. Sóparinn er vökvaknúinn og er því auðsótt verk að ýta fóðrinu að kúnum oft á dag. Til að þurfa ekki að teppa heilan traktor fyrir heilfóðurblandaranum nýta þeir gamla Volvo-vél til þess, en hún var áður notuð til að knýja heydreifikerfi sem var í hlöðunni. Fyrir hverja heilfóðurblöndu notar vélin um 5-7 lítra af olíu, sem er mjög góð nýting.

Áður en heilfóðurblandarinn kom til sögunnar voru settar 12-15 rúllur á fóðurganginn í einu og gefið um það bil tvisvar í viku. Þannig þurftu kýrnar að eyða tíma í að reyta úr rúllunum og hætta á slæðingi var meiri. Með heilfóðrinu hefur náðst aukið át, bætt fóðurnýting, dagsnyt hefur haldist jöfn og ýmiss afurðamet hafa verið sett í kjölfarið.

Við óskum ábúendum í Kolsholti 1 innilega til hamingju með þessa breytingu og mikla árangur.

bös/jþr/gj