Jafnvægisverð á kvótamarkaði 205 kr. á lítra

Matvælastofnun barst 114 gild tilboð um kaup og sölu á tilboðsmarkaði með greiðslumark mjólkur þann 1. nóvember 2016, sem nú er lokið. Markaðurinn að þessu sinni var sá stærsti frá upphafi markaðar fyrir greiðslumark mjólkur. Kveðið er á tilboðsmarkað með greiðslumark mjólkur í reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum nr. 190/2011 með síðari breytingum. Þessi markaður er síðasti tilboðsmarkaður með greiðslumark mjólkur og við tekur innlausnarskylda ríkisins á greiðslumarki frá 1. janúar 2017 til 31. desember 2020. samkvæmt nýjum búvörulögum. Matvælastofnun, Búnaðarstofa, mun annast innlausn greiðslumarks og skal bjóða til sölu greiðslumark, sem innleyst er, á því verði sem ríkið greiddi fyrir innlausn.

Við opnun tilboða um kaup og sölu á greiðslumarki mjólkur þann 1. nóvember 2016 hefur komið fram jafnvægisverð á markaði krónur 205 kr. fyrir hvern lítra mjólkur.

  • Fjöldi gildra tilboða um sölu á greiðslumarki mjólkur voru 69 (samanborið við 38 á markaði 1. september 2016).
  • Fjöldi gildra tilboða um kaup voru 45 (samanborið við 38 á markaði 1. september 2016).
  • Greiðslumark sem boðið var fram (sölutilboð) voru alls 5.941.905 lítrar (samanborið við 1.877.244 lítrar á markaði 1. september 2016)
  • Greiðslumark sem óskað var eftir (kauptilboð) voru 3.580.580 lítrar (samanborið við 2.452.800 lítrar sem óskað var eftir á markaði 1. september 2016).
  • Greiðslumark sem viðskipti ná til eftir opnun tilboða (jafnvægismagn) voru 2.706.508 lítrar að andvirði 554.834.140 kr. (samanborið við 1.624.411 lítrar, 389.858.640 kr., á markaði 1. september 2016). 
  • Kauphlutfall viðskipta er 75.59% (á markaði 1. september 2016 var kauphlutfallið 90,58%). 

Línuritið sýnir niðurstöðu tilboðsmarkaðar þann 1. nóvember 2016. Á myndinni er sýnd blá lína framboðs og rauð lína eftirspurnar. Jafnvægisverð sem fram kom á markaðinum reyndist krónur 205 kr./l. eins og áður segir.

Myndræn framsetning sýnir uppsafnað kaup- og sölumagn við ákveðið verð. Skurðpunktur línanna reynist því aðeins vera niðurstaða á uppboðinu ef ofangreint hlutfall kaup og sölumagns reynist vera jafnt og 1. Sé hlutfallið aftur á móti undir einum þá er skurðpunktur línanna ekki birtingarmynd á jafnvægisverði né jafnvægismagni.

Þeir sem lögðu inn tilboð um sölu á greiðslumarki á verði 205,- kr./l. eða lægra selja nú greiðslumark sitt. Matvælastofnun, Búnaðarstofa, mun nú senda öllum tilboðsgjöfum upplýsingar um afgreiðslu tilboða og gera breytingar á skráningu greiðslumarks þegar uppgjör hefur farið fram. Upplýsingar um greiðslumark sitt geta bændur nálgast á Bændatorginu.

Heimild: Matvælastofnun

/gj