Rekstrargreining garðyrkju

Út er komin frá RML skýrslan „Rekstrargreining garðyrkju á Íslandi 2019-2022“ Þar sem koma fram helstu niðurstöður úr verkefni í afkomugreiningu garðyrkjunnar.

Verkefnið sem þessi skýrsla byggir á er framhald verkefnis sem unnið var af RML á síðasta ári þar sem leitast var við að varpa ljósi á rekstrarafkomu í garðyrkju á Íslandi og þróun hennar á árunum 2019-2021. Nú er bætt við einu ári og unnið með árin 2019-2022.

Aflað var upplýsinga frá einstökum framleiðendum garðyrkjuafurða með það að markmiði að átta sig betur á rekstri helstu framleiðslugreina íslenskrar garðyrkju. Áfram var unnið með upplýsingar frá þátttakendum frá fyrra ári ásamt því að auglýst var eftir fleiri þátttakendum.

Í eldra verkefni var greiningin takmörkuð við rótargrænmeti (kartöflur, rófur, gulrætur) og ylrækt (tómata, agúrkur, papriku) en nú er að hluta bætt við verkefnið greiningu á annarri ræktun með það að markmiði að hafa enn betri heildarsýn á garðyrkjuna.

Þátttakendum í verkefninu hefur fjölgað og eru nú rúmlega 30 framleiðendur virkir ásamt því að unnið er með ársreikninga og opinberar tölur frá u.þ.b. 20 framleiðendum til viðbótar þannig að í heildina eru nú gögn frá 50 aðilum í gagnasafninu. Þessi bú eru mjög breytileg að samsetningu, en af þeim eru um 20 nánast eingöngu í útiræktun (kartöflur, gulrófur, gulrætur o.fl.), 19 í ylrækt (tómatar, agúrkur og paprika) og 11 í öðru (blóm, salat o.fl.).

Í gagnasafninu sem unnið er með eru nú gögn frá framleiðendum sem samanlagt njóta u.þ.b. 85-90% þeirra opinberu stuðningsgreiðslna sem garðyrkjan fær. Það gerir okkur kleift að sýna tölur um heildarþróun greinarinnar yfir þetta árabil ef horft er á ákveðnar lykiltölur.

Leitast er við að greina raunveruleg rekstrargögn garðyrkjubúa eftir framleiðslugreinum. Jafnframt fær hver virkur þátttakandi greiningu á sínum rekstri og stöðu eins og kostur er ásamt samanburði við meðaltöl í greininni. Greiningar verða sendar út næstu daga.

Nú er í meira mæli en síðast horft á niðurstöður og tölur niður á flatarmálseiningu þ.e. tekjur og kostnaður reiknaður niður á hektara í útirækt og fermetra í ylræktinni sem gerir ákveðnar greiningar óháð tegundum mögulegar.

Gögn og upplýsingar eru fengnar úr ársreikningum, landbúnaðarframtölum og öðrum bókhaldsgögnum í samvinnu við framleiðendur sem og úr Jörð.is, Afurð.is, Mælaborði landbúnaðarins og Fasteignaskrá.

Að sjálfsögðu ríkir alger trúnaður um bókhaldsgögn þátttakenda og eru þau vistuð í lokuðum gagnagrunni.

Samantekt
Þó að í verkefninu sé verið að fjalla um og vinna með gagnasafn sem inniheldur stóran hluta garðyrkjunnar er rétt að hafa þann fyrirvara að töluverður eðlismunur er á rekstri hvort um er að ræða ylrækt eða útiræktun. Samt eru ákveðnir þættir sem rétt er að nefna almennt.

  • Afkoma batnar að meðaltali í ylræktinni en versnar í útiræktinni.
  • Framlegð afurðatekna lækkar almennt í greininni allri sem er ákveðið áhyggjuefni.
  • Breytilegur kostnaður á tímabilinu hækkar meira en tekjur mælt í kr./kg.
  • Fastur kostnaður hækkar.
  • EBITDA sem hlutfall af veltu lækkar í útiræktinni en hækkar í ylræktinni.
  • Afkoma versnar heldur í útiræktinni en mikil hækkun á jarðræktarstyrk (úthlutunarreglur breyttust á tímabilinu) og sprettgreiðslum árið 2022 skipta búgreinina miklu.
  • Afkoma í ylræktinni batnar mikið 2022 hjá þeim búum sem mynda það meðaltal sem unnið er með og þá ekki síst vegna annarra tekna sem að meirihluta koma úr ferðaþjónustu. Töluverður munur er þó á afkomu milli búa sem mynda meðaltalið.
  • Ekki er farið í djúpa greiningu á annarri tegund ylræktar þ.e. blóm, salat o.fl. en þó ljóst að þessi 4 ár sem um ræðir hafa einkennst af miklum sveiflum. Afkoman seinni árin tvö þ.e. árin 2021 og 2022 er þokkaleg að meðaltali eftir mikla niðursveiflu covid árið 2020.
  • Framlegð afurðatekna í krónum á flatarmálseiningu (m2) í ylræktinni í heild stendur nánast í stað á þessum fjórum árum.
  • Opinberar stuðningsgreiðslur í hvaða formi sem þær eru hafa afgerandi áhrif í þá átt að halda verði afurða í skefjum og gera greinina rekstrarhæfa.
  • Garðyrkjan í heild sinni skilar heldur betri niðurstöðu árið 2022 en árin á undan en hafa ber í huga að það ár er umtalsverð hækkun á opinberum stuðningi (m.a. sprettgreiðslur) og eins hækka aðrar tekjur mikið (sjá töflu).

Verkefni sem þetta er mjög mikilvægt fyrir greinina og afar jákvætt að mögulegt var að bæta enn frekar í gagnagrunninn sem unnið er með. Ákveðið hefur verið að halda áfram á sömu braut og vonandi verður þetta hér eftir eitt af þeim verkefnum sem stöðugt eru í vinnslu. Það nýtist bæði sem stjórntæki fyrir framleiðendur sem og upplýsingabanki um stöðu greinarinnar. 

Sjá nánar: 
Rekstrargreining garðyrkju á Íslandi 2019-2022

/okg