Bæst hefur í hóp örmerkingamanna

Eins og allir vita þá var námskeiðahald vandkvæðum bundið á meðan á Covid stóð. Námskeið í örmerkingum höfðu því legið niðri frá haustinu 2020. Nú hefur hins vegar verið bætt úr því og á síðustu vikum hafa verið haldin sex námskeið. Bóklegi hluti námskeiðanna fór fram á fjórum stöðum, Hvolsvelli þar sem haldin voru tvö námskeið annað í nóvember en hitt í janúar. Tvö námskeið voru á Blönduósi bæði í janúar, eitt á Hvanneyri í janúar og það síðasta var á Egilsstöðum 1. febrúar. Hvað varðar verklega kennslu höfum við notið velvilja bænda með að fá folöld og aðstöðu til verklegrar kennslu sem er ómetanlegt. Að loknum þessum námskeiðum hefur Mast veitt 78 nýjum aðilum leyfi til að örmerkja hross. Óskum við þessum nýju merkingamönnum velfarnaðar í störfum sínum og þökkum þeim sem opnuðu hesthúsin sín fyrir okkur kærlega fyrir hjálpina.