Er búið að grunnskrá og örmerkja folöldin?

Samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár skulu öll hross vera örmerkt og ásetningsfolöld skal örmerkja við hlið móður fyrir 10 mánaða aldur. Nú ætti því að vera búið að merkja megnið af þeim fölöldum sem fæddust á síðasta ári.  Merkingamenn eru hvattir til að skila örmerkjablöðum inn sem allra fyrst eftir að þeir hafa örmerkt. Hægt er að skila þessum blöðum inn á öllum starfsstöðvum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (www.rml.is) eða senda þau á eftirfarandi heimilisföng:

 Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
-hrossarækt
Óseyri 2
603 Akureyri

eða

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
-hrossarækt
Austurvegi 1
800 Selfoss

Við minnum jafnframt á að gjaldtaka hefur verið tekin upp fyrir allar grunnskráningar, nema á folöldum folaldsárið eða til 1. mars nk. Eftir þann tíma þarf að greiða fyrir grunnskráninguna. Það er því ekki innheimt fyrir skráningu folalda fæddra 2016 til 1. mars 2017. Skráður eigandi að hrossinu greiðir fyrir grunnskráninguna ekki merkingarmaður. Eigandi eða umráðamaður hrossins skal skrifa undir neðst á einstaklingsmerkingablaðið en með því er hann að samþykkja merkingu og skráningu.

Rétt er að benda á að WorldFengur (www.worldfengur.com) er opinn að hluta til fyrir alla án endurgjalds. Hægt er að leita að hrossum eftir fæðingarnúmeri, nafni, uppruna og örmerki. Það geta því allir sem aðgang hafa að netinu kannað hvort örmerki sem sett eru í hrossin þeirra séu ekki örugglega að skila sér inn í WF. Félagsmenn í hestamannafélögum og Félagi hrossabænda hafa frían aðgang að WF en eitthvað er um að félagsmenn viti ekki um þennan rétt sinn.

hes/gj