Skráning á stóðhestaskýrslum og fangvottorðum

Nú eru væntanlega flestir stóðhestar komnir í frí og hryssurnar komnar til síns heima. Það er því rétti tíminn núna að ganga frá skráningum á fangi. Skráning á fangi er eitt af því sem þarf að vera skráð í WF til að hryssueigendur geti skráð folöldin sem fæðast á næsta ári. Eins og þegar hefur verið kynnt, er í dag innheimt fyrir allar grunnskráningar hrossa (sjá verðskrá RML).

Þessar leiðir eru færar til að skrá fyljun:

  • Stóðhestseigandinn skráir í sinni heimarétt hvaða hryssur voru hjá hestinum. Hryssueigandinn fær sjálfkrafa tilkynningu úr WF í tölvupósti þegar það hefur verið gert (ef netfang í WF er rétt skráð).
  • Hryssueigandi skráir fang á sínar hryssur í sinni heimarétt. Þær hryssur birtast síðan í heimarétt stóðhestseigandans sem staðfestir að hryssurnar hafi verið hjá hestinum. Geri hann það ekki fer skráning hryssueigandans ekki í gegn. Það er því mjög mikilvægt að stóðhestseigendur fylgist með hvort hryssur eru að bætast inn á hestinn í heimaréttinni. Skráning hryssueiganda á fangi er í raun tilkynning til stóðhestseiganda sem hann þarf síðan að staðfesta til að hún verið virk.
  • Stóðhestaskýrslu eða fyljunarvottorði skilað inn til RML, undirrituðu af stóðhestseiganda eða umsjónarmanni hestsins. Ef hryssurnar hafa verið sónarskoðaðar þarf dýralæknir að votta með sinni undirskrift niðurstöður úr skoðuninni. Upplýsingar um sónarskoðun eru ekki skráðar nema skýrslan sé undirrituð af dýralækni.

Af gefnu tilefni er rétt að benda notendum WorldFengs á að fara inn í heimaréttina sína undir flipann „Um mig“ og kanna hvort þar komi ekki örugglega upp rétt netfang. Ef netfang vantar eða það er ekki rétt er lítil von til að tilkynningar úr WF skili sér á réttan stað.

Tekið er á móti skýrsluhaldspappírum á öllum starfsstöðvum RML. Skráning fer að mestu fram á starfsstöðvunum á Akureyri og á Selfossi og því æskilegt að þeir sem senda pappíra með pósti sendi á heimilisföngin:

RML, Óseyri 2, 603 Akureyri
eða
RML, Austurvegur 1, 800 Selfoss

Ef eitthvað er óljóst er hægt að senda fyrirspurnir á netföngin agg@rml.is eða halla@rml.is eða hringja í síma 516-5000.

/okg