Upptökur og streymi af kynbótasýningum RML

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur á milli Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) og ALENDIS um streymi og upptökur frá kynbótasýningum sumarið 2022 og möguleika á framlengingu fyrir sumarið 2023. Allar kynbótasýningar vor/sumar 2022 verða því aðgengilegar í vefsíðu/appi Alendis. RML mun fá afhentar niðurklipptar sýningar.

Streymi og upptökur Alendis hófust sem tilraunaverkefni á síðasta ári og var almenn ánægja hjá ræktendum og hestaáhugafólki með framtakið. Eins og áður þurfa þeir sem skrá hross inn á kynbótasýningar að gefa upplýst samþykki fyrir því að upptökurnar verði notaðar en allri sýningunni verður streymt. Upptökur eru ekki notaðar ef upplýst samþykki fæst ekki. Ógildar sýningar fara heldur ekki í dreifingu. Sé vilji til þess að taka sýningu úr dreifingu eftir á er það rætt við Alendis. Í sumar verða einnig teknar myndir af hrossum í sköpulagsdómi, en það er gert sem tilraunaverkefni.

Reynslan í fyrra sýndi að nánast allir skráningaraðilar vildu að sýningin væri tekin upp og mikil ánægja með framtakið og við gerum fastlega ráð fyrir að svo verði áfram, því auk skemmtanagildisins safnast mikilvæg gögn inn í kynbótarstarfið

Myndin sem fylgir er tekinn við undirritun samnings en á henni eru Karvel L Karvelsson framkvæmdastjóri RML og Ragnar Bragi Sveinsson framkvæmdastjóri ALENDIS. Myndina tók Hörður Kristjánsson. 

/okg