Auglýst er eftir búum til þátttöku í verkefninu „Minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði“

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hafa gert með sér samning um verkefni sem miðar að mótun á vegvísi um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði.

Samningurinn felur í sér að Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins leitar samstarfs við 5 bú þar sem lagt verður mat á losun gróðurhúsalofttegunda vegna búrekstursins og landnotkunar. Jafnframt verður leitað leiða til að draga úr losun í samvinnu við þátttakendur í verkefninu og gerð áætlun um raunhæfar aðgerðir til þess.

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins mun leita samstarfs við aðila á sviði rannsókna, menntunar, þróunar, tæknilausna, landbúnaðartengdrar starfsemi, ríkis og sveitarfélaga í þeim tilgangi að þróa samstarfsnet sem getur nýst til framtíðar við stefnumótun og þróun lausna.

Auglýst hefur verið eftir þátttökubúum en við val á umsóknum verður lögð áhersla á að fanga breytileika milli landfræðilegra þátta, svo sem jarðvegsgerðar, landlegu ásamt því að horfa til samsetningar bústofns. Einnig þarf að vera heimilt að birta niðurstöður í fræðslu- og kynningarefni tengdu verkefninu.

Umsóknir um þátttöku skal senda á netfangið snorri@rml.is fyrir 20. júní 2017. Nánari upplýsingar veita Snorri Þorsteinsson (snorri@rml.is) og Borgar Páll Bragason (bpb@rml.is)

sþ/okg