Heyöflun í þurrkatíð

Grös fjölga sér og koma afkvæmum á legg með hliðarsprotum eða jarðrenglum, en við íslenskar aðstæður er óalgengt að túngrös fjölgi sér með fræjum. Í þurrkatíð dregur úr framleiðslu hliðarsprotanna sem kemur niður á uppskeru ársins en einnig lifun næsta árs. En hvernig er best að bregðast við slíkum þurrkum eins og nú?

Næringargildi fellur hratt
Tvennum sögum fer af því hvort áburður hafi náð að leysast upp í vor. Þar sem eitthvað hefur rignt ætti áburður að vera farinn að virka, en þar sem ekki hefur rignt síðastliðinn mánuð eða svo má enn sjá áburðarkorn í sverðinum. Grösin taka upp næringarefni uppleyst í vatni og sumsstaðar er það ekki til staðar svo næringarupptaka er engin sem veldur skorti. Búfjáráburður hefur sumsstaðar enn ekki horfið ofan í svörðinn og á grösunum má sjá skortseinkenni. Ljósgræn eða gul blöð geta bent til köfnunarefnisskorts, slíkar plöntur verða stífar eða stinnar auk þess sem köfnunarefnisskortur dregur úr vexti grasanna og próteininnihaldi þeirra. Blá eða fjólblá blöð benda til fosfór-skorts en slíkur skortur kemur niður á rótarvexti plantnanna. Kuldatíð hefur einnig áhrif á leysanleika fosfórs í jarðvegi sem getur valdið skorti. Kalískortur lýsir sér sem gulgrænum blaðendum og elstu blöðin visna fljótt. Kalískortur getur einnig dregið úr uppskeru túna og valdið því að þær fari snemma í kynvöxt (punta sig fljótt).

Í þurrkatíð bregðast grösin við með því að krossbinda tréni betur en ella og við það hækkar ómeltanlegi hluti trénis (iNDF) mjög hratt. Að sama skapi fellur fóðurgildið.

Ljóstillífun skerðist við vatnsskort
Einfölduð efnaformúla ljóstillífunar er að plöntur taka upp koltvísýring, vatn og ljós til að mynda súrefni og sykrur. Skorti vatn dregur augljóslega úr ljóstillífun. Ljóstillífun gerist aðeins í grænum hlutum plöntunnar (þar sem grænukornin fanga orku ljóssins) og því mikilvægt að slá ekki né beita alveg niður í svörðinn. Séu einungis eftir hvítir hlutar plöntunnar eftir slátt eða beit þarf plantan að ganga á forða í rótakerfi sínu til að koma nýjum blöðum af stað í ljóstillífun. Sannarlega er njólinn vel undirbúinn undir það með sína stólparót, en vallarfoxgras sem geymir forða sinn í lauk er illa undirbúið undir mikla sláttunánd eða ofbeit. Það er því kostur að sláttunánd sé ekki meiri en 6-8 cm til að flýta fyrir endurvexti og draga úr áföllum grasanna. Gæði endurvaxtar verða meiri þurfi plantan ekki að ganga á rótarforðann.

Túngrös sem þola betur þurrk en önnur fá gífurlegt forskot í samkeppninni þegar kemur að lifun næsta árs. Þurrkþolin grös geta t.d. talist túnvingull, stórvingull, beringspuntur eða axhnoðapuntur og séu þau til staðar í túnum geta þau alfarið tekið yfir, sérstaklega á þetta kannski við um túnvingull sem er útbreiddastur þessara tegunda. Eins getur rauðsmári náð nokkru forskoti í seinni slætti eftir slíkt þurrkasumar, fram yfir svarðarnauta sem þola illa þurrk.

Vökvun góð sé henni komið við
Að vökva bestu tún telst hagkvæm fjárfesting á gróffóðri, sé möguleiki á til staðar. Uppgufun úr opnum flögum eða illa grónum túnum verður gífurleg í mikilli og beinni sól, en gróin tún halda betur í sér raka þegar sólin skín. Ánamaðkar og jarðvegslífið allt eiga erfitt uppdráttar bæði í þurrka- og rosatíð. Þurrkatíðin dregur þó úr möguleikum myglu á að vaxa á yfirborði grasanna og skemma fyrir okkur heyverkunina. Á móti kemur að rykmyndun verður meiri og séu heyskapartæki ekki notuð varlega getur mikið magn jarðvegs og ryks borist í heyin við slátt, snúninga og rakstur. Eins þarf að fara varlega í alla forþurrkun þar sem heyið vill gjarnan molna og fínustu blöðin hverfa þá í svörðinn með allri sinni næringu.

jþr/okg