Jarðvegssýnataka haustið 2017

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins vill minna bændur á að huga að jarðvegssýnatöku í haust.

Efnagreiningar á jarðvegi ræktarlands gefa mikilvægar upplýsingar sem bændur geta notað til að byggja áburðargjöf á. Þær segja til um næringarástandið, hvort það sé skortur eða hvort hægt sé að draga úr áburðargjöf ákveðinna efna. Einnig fást upplýsingar um sýrustig jarðvegs og hvort huga þurfi að kölkun. Niðurstöður jarðvegssýna frá haustinu 2016 benda til þess að algengt sé að sýrustig túna sé lægra en þau viðmiðunargildi sem æskileg þykja í jarðrækt.

Jarðvegssýni sem ráðunautar RML taka í haust verða send til greiningar hjá Efnagreiningu ehf. á Hvanneyri. Þegar niðurstöður efnagreininga liggja fyrir geta bændur óskað eftir því að ráðunautar RML fari yfir niðurstöðurnar og sendi bændum túlkun á þeim sem mun nýtast við gerð áburðaráætlana og í öðrum verkefnum er tengjast jarðrækt. Niðurstöðurnar fara einnig inn í forritið jörð.is þar sem þær eru geymdar og aðgengilegar. Til að fylgjast með breytingum sem kunna að verða á sýrustigi og næringarástandi í efsta jarðvegslagi túna og akra er æskilegt að taka úr þeim jarðvegssýni á nokkra ára fresti.

Varðandi jarðvegssýnatöku er rétt að nefna að það er óæskilegt að taka sýni þar sem búfjáráburður hefur verið borin á síðsumars eða í haust. Jarðvegssýnataka mun hefjast í september. Æskilegt er að sem flestar pantanir liggi fyrir snemma í ferlinu til þess að auðvelda skipulagningu heimsókna. Hægt er að panta rafrænt á heimasíðu rml.is, eða með því að hringja í síma 516-5000.

sþ/okg