Margir möguleikar í heyefnagreiningum

Eins og bændur þekkja er mikilvægt að hafa góðar upplýsingar um gróffóðrið sem er undirstaða fóðrunar vetrarins og er þannig grunnurinn að framleiðslunni hvort sem um er að ræða mjólk eða kjöt.

Hjá mörgum bændum er sýnataka úr fóðrinu fastur liður á verkefnalistanum. Annað hvort taka þeir hirðingarsýni eða fá þjónustu við að taka verkað sýni úr rúllum eða stæðum. Þessa dagana er sýnataka í fullum gangi hjá starfsmönnum RML út um allt land og fyrir liggur að unnar verða fóðuráætlanir hjá fjölda bænda þar sem niðurstöður heyefnagreininga gegna mikilvægu hlutverki.

Eins og undanfarin ár hafa bændur nokkra valkosti um efnagreiningaþjónustu. Efnagreining ehf á Hvanneyri býður upp á 7 mismunandi valkosti og einnig er hægt að fá sýnin greind hjá Eurofins/BLGG í Hollandi með milligöngu RML. Það er alls ekki einfalt að taka ákvörðun um hvers konar efnagreining hentar í hverju og einu tilfelli. Starfsmenn RML geta leiðbeint bændum með val á hvaða efnagreiningaþjónustu þeir kaupa. Það kunna að vera mjög mismunandi þarfir á því hversu ítarlegar greiningarnar þurfa að vera. Til dæmis getur það farið eftir þurrkstigi, magni sambærilegs fóðurs, með hvaða hætti fóðrið er notað inn í framleiðsluna og hvort nýta eigi upplýsingarnar einnig til áburðaráætlanagerðar.

Hér neðar má nálgast töflu sem ber saman þær leiðir sem bændur geta valið. Það er rétt að hafa það í huga að í svona samanburði er ekki hægt að taka með í reikninginn margar breytur sem kunna að hafa áhrif á val hvers og eins.

Ráðunautar RML hafa meðferðis sýnapoka og fylgiblöð frá báðum þessum greiningaraðilum.

Sjá nánar

Samanburður efnagreininga 

bpb/okg