Skráning skýrsluhalds í jarðrækt í Jörð.is

Eins og áður hefur komið fram verða á þessu ári greiddir styrkir vegna túna sem eru uppskorin og hafa þessir styrkir gengið undir heitinu landgreiðslur. Einnig eru greiddir styrkir eins og undanfarin ár vegna túna sem eru endurræktuð og ræktun korns og grænfóðurs. Á þessu ári bætast síðan við styrkir vegna útiræktaðs grænmetis. Nánar er hægt að lesa um þessa styrki og hvaða reglur gilda um þá í reglugerð um rammasamninginn á milli ríkis og Bændasamtaka Íslands sem er meðal annars aðgengilegur á vef Stjórnartíðinda. 

Meðal skilyrða þess að geta notið styrkja vegna ræktunar og uppskorins lands er að skýrsluhaldi í jarðrækt sé skilað í Jörð.is. Nú eru allmargir bændur notendur að Jörð.is og munu þeir trúlega flestir sjá sjálfir um að skrá og skila skýrsluhaldinu.

Þeir sem ekki ætla sjálfir að skrá skýrsluhaldið í Jörð.is geta fengið Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins til að gera það fyrir sig. Þeir verða þá fyrst að fá skráningareyðublöð hjá RML þar sem upplýsingar um stærð einstakra spildna kemur fram samkvæmt hnitsettu túnkorti.

Boðið er upp á að gera samning við RML um skráningu í öll skýrsluhaldskerfin sem er hagstæðara heldur en þegar óskað er eftir skráningu skýrsluhalds óreglulega.

Þeir sem vilja vilja fá skráningareyðublöð eða vilja fá nánari upplýsingar geta sent tölvupóst á rml@rml.is eða haft samband í síma 516-5000.

Sjá nánar:

Upplýsingar á vef Stjórnartíðinda

bpb/okg