Vinnufundur fóðurráðunauta

Í Refsstaðafjósinu
Í Refsstaðafjósinu

Fimmtudaginn 12. febrúar sl. hittust fóðurráðgjafar RML í Borgarfirði til að samræma vinnubrögð í eftirfylgniheimsóknum, ræða ýmis fóðrunarmál, hönnun fjósa og skoða kosti og galla þeirra fjósa sem heimsótt voru.

Byrjað var í Hvanneyrarfjósi en þar er lausagöngufjós með mjaltaþjóni. Þar var sérstaklega fjallað um holdstigun mjólkurkúa en hugmyndin var að bera saman ólíka holdstigunarskala og hvaða skali hentaði hverjum og einum ráðgjafa. Til er íslenskur holdstigunarskali hannaður af Laufeyju Bjarnadóttur sem gjarnan hefur verið kenndur hér á landi. Mjög svipaður honum er norski holdstigunarskalinn, en helsti munur á þessum tveimur er að Norðmenn horfa ekkert á fitusöfnun á rifbeinum. Þá var aðeins farið yfir notkun á þeim ameríska, en með honum er mjög fljótlegt að meta meðalholdstig hjarðar, t.d. með því að skoða bogalínuna milli mjaðmarhorns og setbeinsenda um lærleggstopp (hvort hann sé „U“ eða „V“). Eins var aðeins rætt um stærð íslenskra nautgripa. Þar í fjósi er kýr (F: Alfons 02008) sem er vel yfir 750 kg á fæti og var móðir hennar (F: Vestri 94014) einmitt 770 kg á fæti á sínum tíma. Mikill fjölbreytileiki er í íslenska kúastofninum og til þess þarf að taka tillit við gerð fóðuráætlana og þegar mat á átgetu fer fram.

Næsta stopp var á Helgavatni þar sem Pétur Diðriksson leiddi hópinn um fjósið. Á Helgavatni er básafjós með mjaltabás og ríflega 90 kýr. Kýrnar fá heilfóðurblöndu af votheyi úr gryfjum, byggi, mettaðri fitu og steinefnablöndu auk þess sem hámjólka kýrnar fá kjarnfóður sem sjálfvirkur kjarnfóðurvagn á braut skammtar. Á Helgavatni var rætt um grastegundir í túnrækt og heyskaparaðferðir en þar á bæ er nær allt gróffóður sett í stæður. Þá var gerð tilraun til að sigta skít og skoða hvaða fóðurefni skiluðu sér ómelt í gegnum kýrnar.

Síðasti viðkomustaður dagsins var í nýinnréttuðu fjósinu á Refsstöðum í Hálsasveit en þar er lausagöngufjós með 120 legubásum og mjaltaþjóni. Kýrnar eru fóðraðar við heimatilbúinn „Weelink“, eða stuttan fóðurgang sem kýrnar ýta saman eftir því sem fóðrið minnkar á fóðurganginum. Þetta var mjög áhugaverð útfærsla og sýnir að dýrustu lausnirnar eru ekki alltaf þær bestu. Á Refsstöðum var nokkuð rætt um fóðrun í mjaltaþjónafjósum, stillingu upptröppunarhraða eftir burð og nýtingu nythópa við fóðrun gripa á ólíkum tíma eftir burð.

Allt í allt var þetta mjög vel heppnaður dagur fyrir fóðurráðgjafa RML. Við viljum þakka þeim sem tóku á móti okkur.

Á myndinni hér að neðan má sjá hluta hópsins í fjósinu á Helgavatni ásamt Pétri Diðrikssyni.

jþr/okg