Af kyngreiningu nautasæðis

Undanfarna mánuði hefur starfshópur skipaður aðilum frá Bændasamtökum Íslands, Fagráði í nautgriparækt, Nautastöðinni og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins unnið að undirbúningi við innleiðingu kyngreinds sæðis í íslenskri nautgriparækt. Hópurinn hefur fundað með reglubundnum hætti og skoðað hvaða möguleikar eru í stöðunni og hvernig best verður staðið að innleiðingunni.

Fyrir liggur að um tvo valkosti eða tvenns konar tækni er að ræða og eitt af hlutverkum hópsins er að vega og meta hvor tæknin hentar betur. Leitað hefur verið upplýsinga frá framleiðendum varðandi þætti eins og gæði, afköst og verð auk þess sem upplýsinga hefur verið leitað hjá frændum okkar í Danmörku og Noregi. Afköst við kyngreiningu á sæði eru lítil samanborið við töku og frystingu hefðbundins sæðis auk þess sem blöndun fyrir kyngreiningu er mun flóknari en blöndun hefðbundins sæðis og krefst bæði sérhæfðs búnaðar og mannskaps. Eitt af því sem hópurinn er að skoða er hvernig slíkum búnaði verður best fyrir komið og hvernig framkvæmd kyngreiningar verður með þeim hætti að kostnaði sé haldið í lágmarki með nægilegum afköstum fyrir íslenskar aðstæður.

Eðlilega finnst mönnum ganga hægt en mikilvægt er að vanda undirbúning og gera sér grein fyrir áður en ráðist er í kaup á búnaðinum hvaða vandamál kunna að koma upp. Eitt af því sem hópurinn hefur skoðað er hvort íslenskt nautasæði sé af nægum gæðum til að þola meðhöndlun eins og kyngreiningu auk þess sem kannað var hvort mögulega væri hægt að kyngreina íslenskt sæði erlendis. Eftir samráð og fundi með MAST er niðurstaðan að vegna sjúkdómavarna er hvorki hægt að senda íslenskt nautsæði til prófunar erlendis né heldur kyngreina það á erlendri grundu. Hvorki íslensk né erlend löggjöf heimilar slíkt nema því aðeins að Nautastöðin hefði leyfi til útflutnings til ESB, nokkuð sem er bæði mjög kostnaðarsamt og erfitt í framkvæmd miðað við umfang hérlendis. Framleiðendur búnaðarins hafa þó fullvissað okkur um að gæði íslensks nautasæðis séu nægjanleg auk þess sem gæðamælingar á sæðinu benda til, að sögn Norðmanna, að íslenskt nautasæði sé sambærilegt nautasæði annars staðar. Það byggja þeir á reynslu sinni við frystingu Spermvital-sæðis hérlendis.

Að því gefnu að sæðisgæði séu ekki þröskuldur eru næstu skref að skoða með ítarlegum hætti hvernig best verður staðið að framkvæmd kyngreiningar. Það er ljóst að afköst tækninnar eru það lítil að keyra þarf búnaðinn lengur en sem nemur dagvinnutíma. Þá þarf sérhæft og þjálfað starfsfólk. Hvoru tveggja þýðir að um töluverðan rekstrarkostnað er að ræða. Hópurinn er því að skoða hvernig hægt er að framkvæma kyngreininguna með sem hagkvæmustum hætti m.t.t. þátta eins og vinnutíma og staðsetningar en staðsetning hefur t.d. áhrif á aðgengi að sérhæfðu starfsfólki. Í því skyni hefur meðal annars verið skoðað hvort raunhæft er að útvista kyngreiningunni og framkvæma hana annars staðar en á Hesti. Sem dæmi hefur verið rætt við Matís hvort þar sé aðstaða og starfsfólk til að framkvæma kyngreininguna. Rétt er að taka fram að allt er þetta til skoðunar á þessum tímapunkti og engar ákvarðanir verið teknar.

Kyngreining á íslensku nautasæði mjakast áfram og all góðar líkur á að hægt verði að hefja kyngreiningu á næsta ári.